138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ummæli fjármálaráðherra þessara tveggja landa lýsi því hvernig þeir líta á viðsemjendur sína þegar þeir þurfa að ná sínum rétti fram. Það lýsir því líka hvernig þeir líta á hagsmuni sína þegar um er að ræða önnur ríki. Þetta lýsir náttúrlega fyrst og fremst því að þeim dettur auðvitað ekki í hug að leggja á breska skattborgara skuldbindingar sem þeim ber ekki brýn skylda til þess að greiða.

Við Íslendingar ákváðum, og Sjálfstæðisflokkurinn meðan hann sat í ríkisstjórn í lok árs 2008, að það væri ástæða til þess að reyna að ná samkomulagi við þessar þjóðir um umræddar skuldbindingar á grundvelli þeirra skyldna sem á okkur hvíli. En eins og öll atburðarásin hefur orðið og þessi orð lýsa svo greinilega liggur ekkert fyrir hver sú skuldbinding er. Þegar við erum í ofanálag búin að varpa frá okkur þeim rétti okkar að fá úr því skorið hver skuldbindingin er finnst mér ekki koma til greina að samþykkja þessa samninga eins og hér er verið að leggja til.

Þegar menn hafa verið að tala um að lagalegi fyrirvarinn sé hér inni, eins og menn lögðu upp með í sumar, er það bara ekki rétt, hann er það ekki. Við getum fengið að drekka kaffi með Alistair Darling og Gordon Brown ef einhvern tíma eitthvað gerist sem gæti hugsanlega orðið til þess að menn vilji afnema ríkisábyrgðina. Þá getum við farið í kaffiboð. Það er allt og sumt. Það gefur okkur ekki neitt. Á þeim grundvelli erum við að taka á okkur allar þessar skuldbindingar. Þetta er bara of veikt, þetta getum við ekki samþykkt svona.