138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:00]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi skoðun hafi komið fram hjá Ragnari Hall í dag og að hann skuli hafa tekið með svo afgerandi hætti undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá Sigurði Líndal. Við höfum fram til þessa hlustað mjög rækilega á þegar hann kemur fram með gagnrýni sína á stjórnkerfið og þegar hann varar við því að menn gangi of nærri stjórnarskrá.

Mér finnst alveg óhjákvæmilegt að á þetta sé hlustað. Ég skil ekki hvernig við í hv. fjárlaganefnd eigum að taka málið til lokaafgreiðslu. Ég geri ráð fyrir því að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég vona að við fáum þá raunverulegt tækifæri til að fara yfir þetta mál, en það verði ekki gert bara í skyndingu. (BJJ: Það er nú ekki víst.) Það er alls ekki víst, það hafa dæmin sannað. En við verðum auðvitað að fá almennilega álitsgerð um það hvort við séum að ganga of nærri stjórnarskránni. Okkur ber hrein skylda til þess.

Ég tók í ræðu minni sem dæmi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem var mjög umdeildur á sínum tíma. Margir höfðu verulegar áhyggjur af því að við værum að ganga of nærri stjórnarskránni þar. Og menn þorðu ekki að taka neinn séns í því. Auðvitað eiga menn ekki að gera það í svona máli sem varðar slíkar fjárhagslegar skuldbindingar. Við þingmenn höfum rætt það stuttlega, ekki hefur það verið mjög mikið rætt í hv. fjárlaganefnd eins og gefur að skilja í þessari atrennu, að ef þetta yrði samþykkt hvernig við ættum að tryggja að EFTA-dómstóllinn færi að gefa okkur einhver ráðgefandi álit. Og ef hann neitar því, hvað eru menn að fara fram á? Okkur ber skylda til að komast að niðurstöðu í Hæstarétti í samræmi við þetta ráðgefandi álit. Hæstarétti ber skylda til þess að hringja til þeirra og biðja þá að koma með ráðgefandi álit. (Gripið fram í: Treysta þeim ekki.) Hefur einhver spurt Hæstarétt (Forseti hringir.) hvað honum finnst um þetta?