138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar vegna orða hv. þingmanns um hvernig málunum vatt fram í hv. efnahags- og skattanefnd spyrjast aðeins fyrir um þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti tveggja hv. þingmanna í efnahags- og skattanefnd sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum, en það eru hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þau fara nokkuð rækilega yfir það í nefndaráliti sínu hvaða hætta er búin íslenskri þjóð í þessu samkomulagi og þá sér í lagi að ekki liggur enn fyrir hvert skuldaþol þjóðarinnar er. Ég geri nú ráð fyrir því, vegna þess að þar er um að ræða þingmenn annars ríkisstjórnarflokksins, að þeir hv. þingmenn hefðu getað komið því til leiðar að málið hefði verið rætt ítarlega í efnahags- og skattanefnd. Svo mikla áherslu leggja þau á þetta mál í nefndaráliti sínu. Ég hefði því haldið að þau hefðu þá beitt mjög áhrifum sínum í hv. efnahags- og skattanefnd til að fá þetta mál á dagskrá og kannað hefði verið hvert skuldaþol íslenska ríkisins er áður en menn afgreiða málið út úr nefndinni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort svo hafi verið, hvort tækifæri hafi gefist til þess að fara ítarlega yfir skuldaþol ríkisins. Þá langar mig — ef svo hefur ekki verið — einnig að spyrjast fyrir um það hvort engin umræða í hv. efnahags- og skattanefnd hafi verið um getu íslenska ríkisins til að greiða þessar skuldir sem á það eru lagðar.

Svo langar mig að beina því til hæstv. forseta hvort hann geti upplýst mig um hvað ég á mikinn tíma eftir.

(Forseti (ÁÞS): Þrjátíu sekúndur)

Ég þakka forseta fyrir.

Þá langar mig að nýta þessar örfáu sekúndur til að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að við vörðum um 400–500 milljónum í að sækja um í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, hvort hann telji að það hafi kannski verið skynsamlegt fyrir okkur núna að veita þótt ekki væri nema brot af þeirri upphæð í að kynna málstað Íslendinga á erlendri grundu í þessu Icesave-máli.