138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er það svo að hæstv. ráðherra fullyrti ekki nokkurn skapaðan hlut um að Alþingi væri ekki í stakk búið til að leysa þessi verkefni. Hins vegar velti hann því fyrir sér. Það var það sem hann sagði nákvæmlega og á því er grundvallarmunur. Þetta tengist því beint sem ég nefndi áðan, þ.e. að setja hlutina í rétt samhengi, leggja hvorki ráðherrum né þingmönnum orð í munn og ræða hlutina af sanngirni og í samhengi.

Hitt sem ég vildi nefna líka, frú forseti, og til að undirstrika að forseti hefur enga sérstaka skyldu í þessu máli, er að sem betur fer gefast þingmönnum óteljandi tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra út úr. Því var þó breytt til bóta í þingsköpunum á sínum tíma en nú eru óundirbúnar fyrirspurnir tvisvar í viku, þær voru á tveggja vikna fresti áður. Ég tala nú ekki um að hæstv. ráðherra hefur setið hér þessa umræðu alla og verið í húsinu meira og minna allan þann tíma sem hún hefur farið fram. Ég held því og efast ekki um að þingmönnum muni gefast nægur tími til að spyrja ráðherrann út úr þessu sem öðru enda veit ég ekki betur en að er óundirbúinn (Forseti hringir.) fyrirspurnatími verði á miðvikudaginn næst.