138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er kannski ágæt leið til að kanna hvað fjármálaráðherra meinar að hann bara útskýri það sjálfur. Ef það má verða til þess að draga úr áhyggjum og sálarangist hv. þingmanna þá er þarna um að ræða bút úr viðtali við mig sem var tekið í dag þar sem ég var að ræða þau gríðarlega miklu verkefni sem biðu Alþingis og hvað erfitt væri orðið að sjá bara beinlínis fram úr því að við næðum að ljúka þessu öllu saman með vönduðum hætti fyrir jól eða áramót, sem þarf að gera til þess að við náum að afgreiða fjárlög og gera nauðsynlegar ráðstafanir á báðar hliðar, ræða ýmis frumvörp sem tengjast bæði tekjuöflun og sparnaði og aðhaldsaðgerðum sem eru forsendur fjárlagagerðarinnar fyrir næsta ár. Í því samhengi lýsti ég þessum áhyggjum. Ég vona að það útskýri málið aðeins og geri mönnum rórra í hug.

Það er fjarri öllu lagi að í þessu sé fólgið annað en það að málfrelsi hér á Alþingi sé mikilvægt. (Forseti hringir.) Og síðastur manna ætla ég að tala gegn því enda hef ég barist fyrir öðru, að það væri haft hér ríkulegt, og ég hef ekki kvartað undan því þótt þessi umræða stæði hér lengi dags og nætur. (Forseti hringir.) Kannski aðeins frekar af áhyggjum hafi ég lýst yfir því að hún væri notuð í ýmislegt annað en að ræða málið sjálft.