138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svar hans. Svo virðist að við séum með svipaðan skilning á þessu þ.e. að fyrst og fremst séu um hótanir ríkisstjórnarinnar að ræða. Vissulega liggur það fyrir í því frumvarpi sem er til umfjöllunar, í lánasamningnum sem verður nú að viðauka við Icesave-samninginn, svo ég taki upp úr breska samningnum 2.3 gr., að ef aðgerðunum sem getur um í gildistökugreininni hefur ekki verið lokið hinn 30. nóvember 2009 er umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins heimilt að rifta þessum samningi. Það kemur alveg skýrt fram. Það er 30. nóvember 2009 í dag. Það eru þrír klukkutímar í það að frumvarpið falli úr gildi.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson: Er hann ekki sammála þeirri túlkun minni að náum við að ræða þessi mál fram yfir miðnætti og þar með falli frumvarpið úr gildi þá gerist ekki neitt annað en það að lögin frá því í sumar halda gildi sínu? Og komi Bretar og Hollendingar ekki til með að sætta sig við þá lagasetningu verði þeir að senda þetta bréf til innstæðutryggingarsjóðsins?

Eins og alþjóð veit er innstæðutryggingarsjóðurinn gjaldþrota og án ríkisábyrgðar, því að allt snýst þetta frumvarp um að ríkisvæða einkaskuldir. Hann er tómur, á um 16, 17 milljarða. Þeir munu þá taka og sækja málið hér fyrir íslenskum dómstólum. Er ekki þingmaðurinn sammála þessari túlkun á því miðnæturákvæði sem tekur gildi núna eftir tæpa þrjá klukkutíma? Væri ekki nær hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að hvetja þjóðina áfram á þessum erfiðu tímum og hughreysta hana eins og við í stjórnarandstöðunni erum að gera í stað þess að spá (Forseti hringir.) hörðum frostavetri?