138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er kjarni málsins og þetta var ástæðan fyrir því að efnahagslegu fyrirvararnir voru settir hér síðla sumars, einfaldlega vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því að fram undan væri mjög erfið ferð vegna þess að við værum að taka á okkur miklu meiri skuldabagga en við hefðum verið með. Það var mjög mikil óvissa fram undan.

Það er líka mjög mikil óvissa fram undan í efnahagslífi heimsins. Af því að hv. þingmaður nefndi Dúbaí þá gerum við okkur grein fyrir því að hrunið þar getur valdið því að eignaverð til að mynda í Bretlandi muni lækka. Það setur óneitanlega að manni hroll vegna þess að þar með er ástæða til að óttast að hluti af eignum Landsbankans lækki í verði. Nágrannaríki Dúbaís hafa að vísu verið að koma miklu myndarlegar til skjalanna gagnvart því ríki en nágrannar okkar gerðu gagnvart okkur við þessar aðstæður. Nágrannar Dúbaís settu ekki á þá hryðjuverkalög heldur hafa þeir verið að dæla inn peningum til að hjálpa þeim og styrkja gengi Dúbaís-gjaldmiðilsins o.s.frv. til þess að bregðast við.

Það sem mér finnst hins vegar vera svo athyglisvert í þessari umræðu er það sem hæstv. fjármálaráðherra segir okkur, bæði í sjónvarpinu og héðan úr ræðustól Alþingis, að það geti haft áhrif á mat matsfyrirtækjanna hvort við afgreiðum þetta Icesave-mál eða ekki. Hvað er hann að segja? Hann er að segja að ríkisstjórnin hafi ekki vald á sínu eigin máli. Matsfyrirtækin efist um getu ríkisstjórnarinnar til þess að ljúka þessu stóra milliríkjamáli sem gerðir hafa verið ekki einir heldur tvennir samningar um við aðrar þjóðir. Þetta er, held ég, alveg nýtt í okkar þjóðarsögu. Það er til viðbótar við allt annað orðin greinileg pólitísk óvissa sem matsfyrirtækin eru farin að taka inn í þetta, sem er alveg nýtt, sem við höfum aldrei staðið frammi fyrir áður, og er sjálfstætt (Forseti hringir.) áhyggjuefni.