138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við Icesave-málið svokallaða og ekki að ástæðulausu. Þetta er eitt stærsta mál sem komið hefur inn á borð Alþingis áratugum saman eða jafnvel lengur. Þetta er mál sem getur haft mjög víðtæk áhrif á allt efnahagslíf og samfélag og þjóðlíf hér áratugum saman.

Það er fyrst og fremst vegna þess að í þeim drögum sem nú liggja fyrir þinginu til samþykktar er gert ráð fyrir að greiðslur til breskra og hollenskra aðila geti verið út í hið óendanlega sem skapar gríðarlega óvissu. Það er varla forsvaranlegt að leggja þetta á framtíðina og allt það unga fólk sem erfa mun landið. Það vekur líka athygli okkar sem hér stöndum og ræðum þetta stóra mál að sífellt eru að koma upp nýir hlutir og ný sjónarhorn í því. Stjórnarskrárhlutinn er eitt. Einnig hafa verið rifjuð upp, sem var reyndar gert í sumar, orð fjármálaráðherra Hollands — Wouter Bos held ég að hann heiti — um að hið evrópska tryggingarkerfi væri ekki til þess fallið að verja bankana í kerfishruni heldur eingöngu hruni einstaka banka.

Þegar einn af þeim aðilum sem hvað harðast ganga að okkur í þessu máli og einn af lykilleikendum innan Evrópusambandsins — ég ítreka það sem ég hef oft áður sagt að það er undarlegt að sjá að hið stóra bandalag þjóða sem Evrópusambandið er skuli leggjast svo lágt að beita sér fyrir kúgun á íslensku þjóðinni. Það er mjög merkilegt að ráðherrann skuli segja þetta á sama tíma, frú forseti, og hann vílar ekki fyrir sér að gera kröfur á íslensku þjóðina sem eru andstæðar hans eigin orðum.

Ég vil benda á það, frú forseti, að um þetta var rituð grein í sumar að mig minnir af Sigurði Kára Kristjánssyni, sem er fyrrum alþingismaður. Hann ritaði grein um þetta inn á vefinn amx.is. Við bentum á þetta hér en eftir því var ekki tekið en nú hafa fjölmiðlar tekið við sér og bent á þessa ræðu hollenska fjármálaráðherrans sem haldin var 3. mars sl.

Síðan mun Alistair Darling hafa lýst því yfir að Bretar muni ekki ábyrgjast innstæður í löndum eða á svæðum sem eru utan lögsögu breska fjármálaeftirlitsins. Það má að sjálfsögðu heimfæra upp á Ísland því að ekki hefur íslenska fjármálaeftirlitið lögsögu í Bretlandi eða Hollandi. Auðvitað eru bankarnir íslenskir, við getum ekki neitað því, en skilja má orð Alistairs Darlings þannig að það eigi jafnt við um breska banka og aðra þar sem hann vill ekki viðurkenna ábyrgð.

Því má halda fram að skuldbindingar sem felast í Icesave-samkomulaginu muni ekki verða hvetjandi fyrir allt það fólk sem er nú að hugsa sinn gang í íslensku samfélagi, velta því fyrir sér hvort því sé betur borgið annars staðar í heiminum til þess að framfleyta sér og sínum. Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 25. nóvember sl. er bent á að fleiri flytjast til útlanda en nokkru sinni fyrr og virðast flestir flytjast til Danmerkur.

Eflaust liggja margar ástæður þar að baki. En ég ítreka það sem ég sagði, frú forseti, að það er ekki hvetjandi fyrir það fólk sem getur — og nú legg ég áherslu á það — séð sér og sínum farborða annars staðar, það er ekki hvetjandi fyrir það að vera hér áfram ef áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir um að leggja Icesave-skuldbindingarnar á herðar þjóðinni, hækka skatta upp úr öllu valdi þannig að ekki verður séð fyrir endann á því og skera niður velferðarkerfið og allt sem tengist heimilunum og framtíð þeirra.

Hér hafa margir komið og bent á þær hættur sem felast í þessu samkomulagi eða því lagafrumvarpi sem liggur fyrir þinginu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur m.a. ritað greinar í blöð og verið óþreytandi hér í ræðustól að benda á hætturnar sem felast í vaxtaþættinum og skuldbindingunum. Nýlega ritaði hann grein í Morgunblaðið sem kann kallaði „Verða Bretar og Hollendingar mildir húsbændur?“. Frú forseti, því miður er saga þessara nýlenduþjóða ekki á þann veg að hægt sé að svara þeirri spurningu játandi. Ef horft er til sögunnar og hvernig þessar þjóðir drottnuðu yfir heilu heimsálfunum má ætla að sagan vinni ekki með þeim í því máli.

Mig langar, með leyfi forseta, að grípa hér niður í greinina sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ritaði í Morgunblaðið. Ég veit að hv. þingmanni mun ekkert þykja það verra að ég vitni í þessa góðu grein. Hér stendur, frú forseti, undir millifyrirsögninni „Þetta reddast ekki“:

„En það getur líka komið öðruvísi út. Við mig talaði læknir fyrir viku. Hann er með standandi atvinnutilboð úti í heimi. Hann er löngu hættur að reikna launin sín í evrum, það ergir bara. Nú á að fara að skerða þessi krónulaun og hækka skatta. Og námslánin, maður minn! Svo ætla menn að samþykkja eitthvert áhættusamt Icesave-dæmi. „Á ég ekki bara að fara?“ spurði hann mig. Ég dró nú úr því en þau eru mörg í sömu stöðu. Þetta er stærsta hættan sem Seðlabankinn, ríkisstjórnin og stjórnarliðar gleyma. Hvað gerist ef stærsta auðlindin, mannauðurinn, fer? Unga menntaða fólkið? Hvað gerðist í Færeyjum í kreppunni þar? Unga fólkið fór. Hver á að borga alla skattana til að borga vextina af Icesave?“

Þetta kemur heim og saman, frú forseti, við greinina sem ég vitnaði hér í áðan, sem birtist í Morgunblaðinu 25. nóvember sl., þar sem fram kemur að fleiri flytjast nú til útlanda en nokkru sinni fyrr. Við megum ekki heldur gleyma því, frú forseti, í þessari umræðu að við ætlum að leggja byrðar á þjóðina sem nemur tekjuskattsgreiðslum milli 75 til 80 þúsund einstaklinga, eins og hv. þm. Þór Saari benti á. Maður hlýtur því að velta því fyrir sér, frú forseti, hvort ríkisstjórnin, sem vill keyra þetta Icesave-mál hér í gegn, sé búin að reikna það inn í áætlanir sínar því að ekki notum við sömu skattana mörgum sinnum að ég held.

Frú forseti. Hér hefur oft verið vikið að hlutverki, árangri og framgangi samninganefndarinnar sem samdi um þetta fyrir Íslands hönd. Ég vil taka það fram, frú forseti, að gagnrýnin á þá nefnd hvað mig varðar er ekki persónuleg gagnvart þeim embættismönnum sem voru í henni heldur er það með ólíkindum að nefndin skuli hafa verið látin vinna út frá flokkspólitískum hagsmunum og sjónarhornum. Við vitum að þeir sem fara og fóru fyrir þessari nefnd eru aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra og gamall og gegn flokksbróðir hans og núverandi sendiherra. Það er því spurning, frú forseti, hvort ekki sé rétt að þetta mál fái þann tíma sem þarf hér í þingi og í nefnd og að þeir sérfræðingar sem boðið hafa fram þjónustu sína verði fengnir til þess að fara yfir málið í heild, e.t.v. fara svo út fyrir hönd Íslands til að ná betri samningum, því að við höfum séð að þeir erlendu aðilar sem fjallað hafa um málið hafa bent á ýmsa galla í því. Nýlega var t.d. bent á að það gæti verið brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í þessu samkomulagi er varðar jafnræðisregluna, svo dæmi sé tekið. (Forseti hringir.)

Frú forseti, það eru tíu sekúndur eftir af ræðutímanum en ég vil þakka þér fyrir þennan afskaplega góða bjölluslátt. Ég vil ítreka að það er mikilvægt að málið fái þá skoðun sem það þarf.

(Forseti (ÞBack): Nú vill forseti biðjast velvirðingar en nú bar klukkunum ekki saman, klukkunni í ræðustól og klukku í púlti forseta.)