138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að við eyðum löngum tíma í einkunnagjöf fyrir ágæta ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, ólst ég upp við þá einkunnagjöf að ágætt væri best en látum það liggja á milli hluta.

Þetta snýr ekki bara að ríkisstjórninni, þetta snýr líka að því hvaða skilaboð stjórnarandstaðan gefur. Hv. þingmaður sagði að bréf Gordons Browns væri móðgun við íslenska þjóð. Hvað þýðir það? Það þýðir að við eigum ekki samskipti við þennan aðila. Það þýðir að við gefum honum í það minnsta einhver hörð skilaboð. Mér finnst allt þetta mál vera þess eðlis að forustumenn Bretlands, Hollands og Evrópusambandsins líta svo á að það sé einfalt að valta yfir forustumenn íslenskrar þjóðar. Ég tel, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan eigi a.m.k. að halda uppi vörnum fyrir íslenska þjóð ef ríkisstjórnin getur ekki gert það. Það er stóralvarlegt mál þegar (Forseti hringir.) þjóðhöfðingjar erlendra ríkja koma svona fram eins og raun ber vitni (Forseti hringir.) eða þetta blessaða Evrópusambandsþing. Mín skoðun (Forseti hringir.) er sú, virðulegi forseti, að við getum ekki látið þetta óátalið.