138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal kærlega fyrir ræðu hans. Hann kemur inn á mikilvægan punkt hvað varðar hið nýja reglugerðafargan sem Evrópusambandið fór í að smíða eftir að bankarnir féllu á Íslandi. Það var útbreiddur skilningur í Evrópusambandsríkjunum að ekki væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðunum eins og ég hef komið inn á, fyrst með áliti Seðlabankans frá árinu 2000 og svo með dómi Evrópudómstólsins gegn Þýskalandi árið 2002. Þessi skoðun var útbreidd þar til Bretar og Hollendingar heimta ríkisábyrgð á einkarekinn banka í haust og um það erum við enn að þrefa og á morgun er 1. desember svo að það sé á hreinu. (BjarnB: Frostavetur.) Frostavetur fram undan eftir því sem hæstv. forsætisráðherra telur, alltaf góð í að tala kjark í þjóðina eins og við vitum.

Mig langar að upplýsa þingmanninn um að ég var með fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um daginn. Ríkisstjórnin lætur ekki sjá sig á þessum bekkjum frekar en fyrri daginn að undanskildum hæstv. fjármálaráðherra, nú þegar klukkan er orðin 10 mínútur yfir 10 á þessu barnvæna Alþingi þá situr hann með okkur. Það er verið að smíða frumvarp — ég spurði um ábyrgðina, hver mundi ábyrgjast bankana núna. Samkvæmt orðanna hljóðan eru bankarnir þrír ríkisbankar þar til í kvöld samkvæmt fréttum að Nýja Kaupþing, sem er orðið að Arion banka, er komið í eigu kröfuhafa. Svar hæstv. viðskiptaráðherra vakti því langtum fleiri spurningar hjá mér. Svo virðist vera að við séum í tómarúmi því innstæðutryggingarsjóðurinn gamli er gjaldþrota, eins og við vitum, og verið að heimta ríkisábyrgð á hann, ekki búið að stofna nýjan og svo er verið að fara með þessa nýju reglugerð í það að ekki er hægt að hafa þetta með öðrum hætti en að bankarnir séu ríkisreknir. Ég vil því spyrja þingmanninn: Hefur hann ekki áhyggjur af þessu?