Fjáraukalög 2009

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 22:36:19 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[22:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það samkomulag sem fjármálaráðherra undirritaði bæði í júní og nú aftur í október skuldbindur ríkissjóð. Það er búið að setja lög á Alþingi um skilyrta ríkisábyrgð á þessari upphæð sem mér skilst að Bretar og Hollendingar gætu með einfaldri tilkynningu látið fara í gang. Reyndar er það þannig, herra forseti, að Bretar og Hollendingar hafa skrifað undir nýtt samkomulag og sumir hafa sagt að það sé ígildi þess að þeir hafni fyrirvörunum í þeim lögum sem eru í gildi. Þetta vildi ég gjarnan fá á hreint. En þarna er um að ræða þvílíkar upphæðir að bara vextirnir eru rúmlega 100 millj. á dag sem tikka út af Icesave og það er dálítið ankannalegt þegar menn eru að skera niður hér og þar, 10 millj. hér, 15 millj. þar o.s.frv. og það er verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu en á sama tíma dúndra menn út peningum út af tónlistarhúsinu. Ég veit ekki hvort það eru 10 eða 15 milljarðar samtals, ég þekki það ekki, og svo er það Icesave þar sem menn eru að borga 100 millj. á dag í vexti og taka svo upphæð sem eru 700, 800 eða 1.000 milljarðar til lengri tíma litið. Mér finnst að þetta þurfi að standa í fjáraukalögunum þannig að þjóðin viti hvað ríkisstjórnin er búin að skuldsetja börnin okkar mikið.