Fjáraukalög 2009

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 23:41:05 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga og þótt ótrúlegt sé ber að fagna því að það sé komið á dagskrá. Í fyrsta lagi langar mig að segja að ég er mjög hugsi yfir þessu fyrirbæri, mundi ég leyfa mér að segja, sem fjáraukalögin eru í raun.

Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar og því sem er fyrir þetta ár er gert ráð fyrir ýmsum liðum, þar á meðal heimildarliðum til ráðuneyta og ýmsu þess háttar. Maður fer að velta því fyrir sér hvort stjórnvöld á hverjum tíma treysti orðið um of á fjáraukalög og vísi jafnvel málum sem þau hafa ekki komið sér saman um eða ekki náð að klára af annarri ástæðu til fjáraukalaga og treysti á að þeim verði mætt þar. Það segi ég vegna þess að m.a. var heimild til umræðu í fjárlaganefnd ekki alls fyrir löngu, sem er þá væntanlega á fjárlögum næsta árs, til að kaupa hlut í orkufyrirtækjum og slíku. Ég var mjög hugsi eftir þær upplýsingar sem ég fékk, ekki síst í ljósi þess að slík kaup geta numið tugum milljarða. Þá er eðlilegt að þeim sé vísað inn í heimildarákvæði í fjárlögum sem síðan er mætt í fjáraukalögum.

Það hefur margt komið fram í þeim ræðum sem fluttar hafa verið um fjáraukalagafrumvarpið og mun ég í mjög stuttu máli hlaupa yfir nokkur atriði sem nefnd eru í minnihlutaálitinu. Ég vil þá fyrst taka undir það, herra forseti sem kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal áðan að það er mjög bagalegt og óásættanlegt í raun að það sé óvissa um hvernig farið er með vaxtagreiðslur vegna Icesave og hvar þær lenda. Það er ljóst að þar er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða og því mjög slæmt að um það ríki einhver óvissa. Þá er líka rétt að halda því til haga að vegna þess að skattar sem lagðir voru á í sumar virðast ekki hafa innheimst sem skyldi, er nú enn þá stærra gat sem þarf að stoppa í. Ég hef áhyggjur af því í ljósi þess hvernig fjáraukalagafrumvarpið lítur út, að næsta haust verðum við í enn flóknari stöðu.

Í inngangi að nefndaráliti minni hlutans er rætt um vinnubrögð og annað og það er eðlilegt að það komi upp spurning um hvernig verklagi sé háttað í nefndinni og hvernig þátttaka fagráðuneyta sé á hverjum tíma. En svo virðist sem eitthvað hafi vantað upp á samráð og samskipti varðandi þetta frumvarp.

Hér er bent á almennt varðandi frumvarpið að tekjujöfnuður er neikvæður um rúma 166 milljarða en þá eru ekki tekin til greina vaxtagjöld sem vegna Icesave gætu numið a.m.k. 40 milljörðum kr. Þar fyrir utan eru þeir skattar sem áttu að skila sér en hafa ekki gert það. Á bls. 3 í áliti minni hlutans er m.a. rætt um tekjuáætlunina og þar bendir 1. minni hluti á óvissu sem eðlilega ríkir um innheimtu tekjuskatta lögaðila því að við verðum að hafa í huga að það eru mörg fyrirtæki sem eiga í alvarlegum rekstrarvandræðum. Komið hefur fram að um þriðjungur fyrirtækja er í þessum vanda og þá er mikilvægt að horfa ekki fram hjá því þegar slíkt er gert.

Á bls. 5 er rætt um hlutverk fjárlaganefndar m.a. og aðra hluti og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp stutta málsgrein:

„Ef fjárlaganefnd á að rækja lögbundnar eftirlitsskyldur sínar og geta lagt raunhæft mat á þörf breytinga í fjáraukalögum verða upplýsingar um fjárhagsstöðu stofnana og fjárlagaliða að liggja fyrir mun fyrr en nú er raunin. Því miður hefur fjárlaganefnd ekki fengið uppgjör fjármálaráðuneytisins fyrstu níu mánuði ársins þegar þetta álit er lagt fram. Augljóst má því vera að þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram við 2. umræðu um fjáraukalög ársins byggjast á afar takmörkuðum upplýsingum um stöðu fjárlagaliða. Þær tillögur sem hér liggja fyrir verða því að teljast í besta falli óraunhæfar og líklegt að við framkvæmd fjárlaga næsta árs muni þessi óvönduðu vinnubrögð birtast í miklum erfiðleikum í rekstri stofnana og ríkisaðila.“

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar svo mikilvæg mál eru til umræðu.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar eru lagðar til töluverðar breytingar á ýmsum liðum og er það í sjálfu sér efni í sérstaka umræðu hversu stórir þeir eru og mun ég ekki fara yfir það hér. Það er mikilvægt að gefa gaum þeim ábendingum eða áliti sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og vitnar í vegna framkvæmda fjárlaga janúar til ágúst og segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Ítrekuð er sú afstaða Ríkisendurskoðunar sem birtist hér að framan (bls. 20) að ábyrgð ríkissjóðs á lánum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu vegna Icesave-reikninga Landsbankans, sem samþykkt var með lögum frá Alþingi í ágúst sl. verði staðfest sérstaklega í fjáraukalögum.“

Fram hjá þessu verður ekki horft þar sem um gríðarlegar fjárhæðir getur verið að ræða.

Herra forseti. Í lokaorðum í áliti minni hlutans er enn og aftur vikið að vinnubrögðum og ástandi ríkissjóðs, samskiptum og öðru slíku. Í lokaorðum segir, með leyfi forseta:

„Vinna fjárlaganefndar við meðferð fjáraukalaga ársins ber þess merki að enn sé langt í land að ríkisstjórnin hafi náð tökum á þessu viðfangsefni og því síður er upplýsingagjöf til fjárlaganefndar hagað með þeim hætti að nefndinni sé unnt að rækja eftirlitshlutverk sitt með framkvæmd fjárlaga. Ljóst er að fyrirsjáanlegir eru miklir erfiðleikar í rekstri ríkisins á næsta ári ef sömu lausatök verða viðhöfð við gerð og framkvæmd fjárlaga ársins 2010. 1. minni hluti fjárlaganefndar bindur miklar vonir við þá samstöðu sem myndast hefur í fjárlaganefnd til að efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og vonar að þingsályktunartillaga nefndarinnar fái gott brautargengi í þinginu.“

Það er mjög mikilvægt að við þessu verði orðið. Það er mikilvægt að fjárlaganefnd fái aðgang að því kerfi sem ráðuneytin vinna eftir við gerð fjárlaga og við að stýra þeim stofnunum sem þar eru undir og legg ég áherslu á það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en ég vil hvetja ríkisstjórn og þá sem stýra vinnu við fjárlagagerð ársins 2010 að vanda mjög til verka því að það er að mínu viti töluverð hætta á að ekki verði — ég segi ekki auðvelt en að erfiðara verði að fara fram með fjáraukalagafrumvarp næsta haust en nú er.