Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 11:42:18 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur svarið og get upplýst að ég deili þeim skoðunum með hv. þingmanni, Icesave-málið er talsvert mikilvægara en fjölmiðlafrumvarpið alla vega og ný lög um Ríkisútvarpið, þótt vissulega séu þau mjög mikilvæg.

Ég velti fyrir mér í tilefni orða hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðlum um að stjórnarandstaðan væri að þvælast fyrir, hvað stjórnarandstaðan hafi verið að gera á þeim tíma þegar þessi mál voru rædd í kringum 100 klukkustundir, og hvort ráðherrann mundi nota sömu orð yfir þá umræðu, sem hann tók þá væntanlega þátt í. Ég tel að við séum að ræða mjög mikilvæg mál og þess vegna hef ég saknað þess að fá ekki hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra í pontu til að útskýra fyrir okkur að það hafa komið fram ný mál í hverri viku sem ekki hafa verið rædd í nefndum þingsins og hafa ekki, alla vega ekki svo ég viti til, verið upplýst með þeim hætti úr stól Alþingis að við þingmenn eða þjóðin getum tekið þau til okkar. Má þar nefna stjórnarskrármálið, eins og þingmaður nefndi, en líka mál er snerta jafnræði til vaxta sem kennt hefur verið álitsgerð Daniels Gros og fleiri slíka hluti sem hafa hreint ekki verið útskýrðir í pontu.

Mig langar að lokum að velta því upp við hv. þingmann hvort við megum ekki búast við því að stjórnarþingmenn og ekki síst ríkisstjórnin muni streyma upp í ræðustól og reyna að sýna þessu máli þá virðingu að tala alla vega jafnmikið um það eins og þau mál sem menn eyddu hundrað klukkutímum á sl. árum. (Gripið fram í: Þetta er sem sagt spurning um magn?) (Gripið fram í: Og gæði.)