Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 12:30:05 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég andmæli því að við í stjórnarandstöðunni séum að tefja fyrir framgangi mála. Við höfum bent á það í margar vikur að við mundum greiða fyrir framgangi framfaramála og greiða fyrir framgangi þeirra mála sem ríkisstjórnin leggur áherslu á. Eins og kom fram hjá ráðherranum er það einungis eitt mál sem hefur beðið í eina viku, hin málin hafa beðið í örfáa daga og við hvetjum til þess að þau verði tekin nú þegar á dagskrá. Til dæmis ættum að geta hafið umræðu um skattana í dag.

En varðandi það hvort fyrri stjórnarandstaða hafi greitt sérstaklega fyrir þingstörfum þá minnist ég þess fyrir um það bil einu ári, ég hygg að það hafi verið 24. nóvember í fyrra sem hinn sami þingmaður og síðast talaði mælti fyrir vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Hann kann að líta á það sem eitthvað annað en að hann hafi reynt að bregða fæti fyrir ríkisstjórnina en það var einmitt það sem hann gerði þegar hann mælti fyrir þeirri tillögu á þeim tíma sem ýtti undir óánægju og spennu á þinginu. Við skulum leyfa Icesave-umræðunni að eiga sinn eðlilega framgang. Það hefur verið þannig undanfarna daga. Önnur mál sem þurfa að komast á dagskrá geta gert það okkur að meinalausu. Við hvetjum einmitt til þess að þau mál séu tekin á dagskrá.