Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 13:50:20 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi Brussel-viðmiðin sjálf þykjast menn nú kátir af því að þau séu komin að einhverju leyti inn í samningana. Það er greinilega álitamál og ekkert sem bendir til þess í þessum samningum að tekið sé tillit til efnahagsástandsins á Íslandi. Efnahagsástandið á Íslandi er einfaldlega þannig í dag að við ráðum ekki við þessar greiðslur nema þá að gera hér harða atlögu að velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum. Það er náttúrlega verið að því. Það er verið að gera harða atlögu að þeim.

Vissulega má ná í peninga þannig í einhvern tíma en þá brytja menn einfaldlega hér niður stoðkerfi samfélagsins og það er nákvæmlega það sem menn hafa séð gerast í þeim löndum sem hafa fengið svokallaða aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig byrja þau að verða að þróunarríkjum, þ.e. þau byrja á því að reyna að standa undir skuldbindingum sem þau ráða ekki við og skera niður samfélagsreksturinn þannig að hann hrynur. Allan tímann eiga þau eingöngu fyrir vaxtagreiðslunum, þau ná aldrei að borga niður höfuðstólinn, og enda svo í þessum fræga Parísarklúbbi. Ég held að þó að Íslendingar stæðu ekki í lappirnar í þessu máli mundu þeir ekki fara þangað inn, það er hægt að leysa þessi mál með öðrum hætti.

Það er hins vegar athyglisvert og kannski rétt að benda á það í samhengi að hæstv. fjármálaráðherra var að tala um það í gær að hann hefði sparað 66 milljarða kr. með því að samþykkja yfirtöku kröfuhafa á Kaupþing, sem nú heitir Arion banki. Það sem ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra segja var að hann væri búinn að einkavæða ríkisbanka, nokkuð sem er hvergi stafur fyrir í stefnuskrá Vinstri grænna, og hann er búinn að einkavæða Arion banka í hendurnar á einhverjum sem enginn veit hver er. Það tókst Sjálfstæðisflokknum aldrei að gera þó að hann hafi einkavætt hér út og suður. (Gripið fram í: … völdu sína vini.)