Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 13:55:15 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðuna. Ég hef tekið eftir því í þessu máli öllu saman að hann hefur lagt sig fram um að skoða það mjög ítarlega og komast að rökstuddri niðurstöðu. Það er það sem við höfum reynt að gera í stjórnarandstöðunni með því t.d. að fá afléttri leynd af gögnum og fá allar upplýsingar um málið, þar á meðal að kalla fyrir nefndina alla þá færustu sérfræðinga sem gætu upplýst málið á einhvern hátt.

Þingmaðurinn nefndi að fyrir nefndina hefði komið sérfræðingur í lögum, Elvira Méndez, og ég tek undir með þingmanninum sem sagði að framlag hennar hefði verið gríðarlega mikilvægt. Í rauninni er með ólíkindum að meiri hlutinn í fjárlaganefnd skuli ekki fallast á að hún fái greitt fyrir vinnu sína eins og ég veit að margir fá greitt fyrir vinnu sína fyrir stjórnvöld. Það þarf ekkert að rifja neitt sérstaklega upp alla þá sérfræðinga sem er búið að smala inn í ráðuneytin, og það úr bönkunum, jafnvel þá sem stóðu að því sem við erum að berjast gegn í dag, eins ótrúlegt og það hljómar.

Mig langar að spyrja þingmanninn einnar spurningar. Nú var fullyrt að samningarnir hefðu batnað eftir síðustu lotu. Það var fullyrt að ein meginástæðan fyrir því væri að nú væri búið að setja fyrirvarana inn í bresk lög. Engu að síður hefur enginn sérfræðingur í breskum lagarétti einum og sér komið fyrir nefndina og Sigurður Líndal bendir á að Bretar séu þekktir fyrir að vera einstaklega (Forseti hringir.) þjóðernissinnaðir þegar þeir taka afstöðu.