Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 14:32:47 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann kom þar töluvert inn á samtenginguna milli Evrópusambandsins og Icesave-samninganna og fór réttilega yfir það sem gerðist hér síðastliðið vor þegar fyrstu samningarnir voru lagðir fram 5. júní. Þá talaði þingflokkur Samfylkingarinnar einn hér, þ.e. forustumenn Samfylkingarinnar lýstu því yfir að Samfylkingin gerði engar athugasemdir við þessa glæsilegu samninga áður en hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar höfðu í raun haft tíma til þess að kynna sér þá. Það var ekki vegna þess að þeir hefðu ekki lesið þá heldur vegna þess að þeir höfðu ekki haft aðgang að þeim gögnum sem þeir þurftu til þess að vera vel upplýstir um þessa samninga.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort þráin til þess að komast inn í Evrópusambandið sé þá eingöngu sú hugsun sem vakir fyrir Samfylkingunni, að það sé í raun og veru nákvæmlega sama hver kostnaðurinn er. Það hefur reyndar verið upplýst af mörgum hv. þingmönnum sem farið hafa fram, þar á meðal hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Hún sagði að þegar hún hefði farið utan og rætt við breska og hollenska þingmenn hefðu þeir sagt algjörlega umbúðalaust við hana, af því að hún var fylgjandi umsókn að Evrópusambandinu, að ef Íslendingar mundu ekki ganga frá Icesave þýddi ekkert fyrir þá að sækja um. Því langar mig að spyrja hv. þingmann um hvort það geti verið að það sé eingöngu ástin á Evrópusambandinu sem rekur Samfylkinguna áfram í þessu máli, vegna þess að þetta er alveg með ólíkindum.

Síðan kom reyndar fram í máli hæstv. fjármálaráðherra í morgun eða í hádeginu að ákveðin Evrópusambandsríki hefðu verið með beinar eða óbeinar hótanir við Íslendinga. Telur hv. þingmaður að það sé eingöngu Evrópusambandið sem rekur Samfylkinguna áfram í þessu máli?