Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 14:37:11 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns og skil ekki þörf Vinstri grænna til að borga þennan aðgöngumiða að Evrópusambandinu, því að eins og við munum þegar greidd voru atkvæði um Evrópusambandsumsóknina fóru margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar þeir upp í ræðustól og lýstu því hversu ömurlegur þessi klúbbur væri en sögðu samt já við umsókninni.

En mig langar að spyrja hv. þingmann eftir þá miklu vinnu sem var unnin hér í sumar þegar menn náðu breiðu pólitísku samkomulagi um að fara fyrirvaraleiðina, hvað honum finnst um að það skuli hafa verið send út samninganefnd eða sendinefnd, án þess að ég sé nokkurn hlut að gera lítið úr einstaklingunum sjálfum. Hefði hv. þingmanni ekki fundist eðlilegra að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, ásamt hugsanlega forustumönnum stjórnarandstöðunnar, hefðu farið á fund með hollenskum og breskum stjórnvöldum til þess að kynna þeim niðurstöðu Alþingis?

Það kom mjög skýrt fram hjá Lee Buchheit, þeim reynda samningamanni sem kom á fund fjárlaganefndar í sumar, að þetta mál yrði á endanum aldrei leyst öðruvísi en með því að fara á hæsta stig í pólitískum skilningi, þ.e. það yrði að færa það upp úr „embættismannalevelnum“, svo ég sletti nú aðeins, og upp á hæsta stig þannig að forustumenn ríkisstjórnarinnar í hverju landi fyrir sig reyndu að komast að niðurstöðu um þetta mál. Getur þingmaður tekið undir það með mér að það hefði verið eðlilegast að hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra ásamt forustumönnum stjórnarandstöðunnar hefðu farið til þess að kynna málið? Mig langar að spyrja hv. þingmann hver hann telur að viðbrögð hans flokks, Framsóknarflokksins, hefðu þá verið, í staðinn fyrir þá snautlegu leið sem farin var, að skrifa bréf (Forseti hringir.) sem svarað var eftir margar vikur?