Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 14:41:39 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Höskuldi Þórhallssyni fyrir skörulega ræðu þar sem vel var farið yfir lögfræðilegu hliðina á þessu máli, enda er hér sérfræðingur á ferð sem jafnframt situr í fjárlaganefnd þannig að hv. þingmaður ætti að vera vel inni í því hvernig þetta mál allt saman hefur verið unnið í nefndinni.

Hér hafa forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hvor flutt sína ræðuna í þessu máli um þetta stóra mál og í máli hæstv. fjármálaráðherra kom fram að hann sakar okkur í stjórnarandstöðunni um að hafa lítið til málanna að leggja og að það séu litlar og fáar lausnir í boði. Þrátt fyrir að ég hafi í andsvörum mínum við hv. þingmenn kallað eftir því hvaða lausnir menn hafa í þessu máli og hvaða útfærslu þeir sjá á því, ítrekaði hæstv. fjármálaráðherra þessa skoðun sína í ræðustól um hádegisbilið. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„... að fáar tillögur um hvernig á að leysa málið hafi komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar ...“

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar: Hvað gerist ef okkur í stjórnarandstöðunni mundi takast það verk að sannfæra þingheim um að fella þetta frumvarp? Hvaða afleiðingar mundi það hafa í för með sér og hvaða málsmeðferð mundi þá taka við? Það er gríðarlega gott að fá það upp á borðið. Ég sé að hv. þm. (Gripið fram í.) Árni Þór Sigurðsson gengur hér um salinn og niðurlægir sjálfan sig með því að reyna að eiga orðastað við mig í ræðustól. Þetta tel ég vera til háborinnar skammar og ég óska eftir því að hv. þingmaður láti af þessum kjánalátum og sýni þinginu svolitla virðingu. (ÁÞS: En þingmaður sem er í ræðustól?)

En hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, mig langar líka að velta því upp ... (Gripið fram í.) Frú forseti. Gæti ég fengið hljóð? (Forseti hringir.) Mig langar líka að biðja hv. þm. Höskuld Þórhallsson að útskýra fyrir mér ef hann getur hvernig staðan er á þessum málum … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Klukkan er því miður enn í ólagi, en tíminn svona er u.þ.b. að renna út ...)

Já, frú forseti, ég beini bara síðari spurningu minni til hv. þingmanns í seinna andsvari.