Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 14:51:17 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið haldnar miklar ræður í dag, m.a. af hæstv. forsætisráðherra sem í raun var að ræða fundarstjórn forseta. Ef ég skildi málflutning hans rétt gekk hann mikið út á að allir hlutir væru komnir fram og engin sérstök ástæða væri til þess að halda þessu áfram. Eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem mér finnst mikilvægt að við komum inn í þessa umræðu og verði upplýst, virðulegi forseti — og ég vil nota tækifærið því hér er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og ég veit að margir þeirra sem fylgjast með þessu eru mjög forvitnir — er hvort formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi einhverjar upplýsingar sem aðrir hafa ekki og þá nákvæmlega hvaða upplýsingar það eru. Þetta hefur komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra — (Gripið fram í: Fjármálaráðherra.) hæstv. fjármálaráðherra og þögn formanna stjórnarandstöðunnar er æpandi. (Forseti hringir.)