Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 14:58:12 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú hefur það verið upplýst að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki deilt þeim upplýsingum með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna sem hann lét í veðri vaka í ræðustóli Alþingis. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti líka að hann hefði af því töluverðar áhyggjur að hér lægju mörg mál órædd sem þyrfti að afgreiða fyrir jól, fjárlög, fjáraukalög, skattamál og fleira. Ég deili þeim áhyggjum með hæstv. fjármálaráðherra að það þurfi að koma þessum málum í gegn vegna þess að við þurfum að klára fjárlagagerðina fyrir áramót.

Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta að forseti beiti því valdi sem forseti hefur til þess að breyta dagskrá þingsins nú þegar fyrir liggur að það er engin greinileg efnisleg ástæða fyrir því að ekki megi ýta Icesave-málum til hliðar á meðan við klárum að fara vel og ítarlega yfir það. Hæstv. fjármálaráðherra hélt 40 mínútna ræðu áðan og fyrir utan (Forseti hringir.) þessa athugasemd um upplýsingarnar sem (Forseti hringir.) áttu að hafa komið fram á þessum fundi kom ekkert fram í ræðu (Forseti hringir.) ráðherrans sem gaf annað til kynna en að þetta mætti bíða, frú forseti.