Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 15:23:41 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður í ræðustól Alþingis að þegar við náðum þessari breiðu pólitísku samstöðu hér í sumar og afgreiddum lögin í ágúst batt ég einlæglega vonir við það að við mundum ná að standa saman í gegnum málið í heild sinni, þ.e. við mundum nýta krafta okkar. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að skynsamlegra hefði verið að gera það með því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og forustumenn stjórnarandstöðunnar hefðu sameinast um að kynna Bretum og Hollendingum niðurstöðu laganna.

Það sem gerðist í þorskastríðinu var það að þjóðin stóð saman. Það þurfum við að gera núna, það er mikilvægt að við stöndum saman. Ég ætla ekki að hafa stór orð um það og geri engum það upp að menn séu ekki að gera það sem þeir telja best. Eins og ég hef sagt áður verðum við að fara varlega í það að brigsla mönnum um eitthvað annað.

Hins vegar stendur eftir að á þeim tímamótum sem íslensk þjóð er á núna þá líður mér afskaplega illa að vera í pólitískum skylmingum. Ég er bara heiðarlegur með það. Mér líður mjög illa með það. Ég vil ekki berja hér á pólitískum andstæðingum, vinna pólitíska sigra eða tapa vegna þess að nógur tími er til þess. Nú stöndum við á þeim tímamótum að íslensk þjóð og allir íslenskir stjórnmálamenn og hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar eiga að standa saman og styðja hver annan. Við eigum ekki að skylmast. Við höfum nógan tíma til þess að fara í einhverjar kosningar, en hvort þessi flokkur fær 2% eða 3% eða 5% meira eða minna skiptir bara engu máli. Við höfum nógan tíma til að fara í svoleiðis þrætur. Nú eigum við fyrst og fremst að standa saman.