Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 15:33:36 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur áðan um breytingu á röðun mála. Ég vil beina því til hæstv. forseta sem hér situr, og vona að það mál verði rætt á vettvangi forsætisnefndar þingsins, hvernig hægt sé að haga skipulagi þingstarfanna með þeim hætti að sem mestur árangur náist af þingstörfunum. Þar á meðal er ljóst að skattamál ríkisstjórnarinnar bíða afgreiðslu og þrátt fyrir að við í stjórnarandstöðunni séum efnislega mjög andvíg þeim frumvörpum þá höfum við skilning á því að þau þurfa að fara til nefndar til að fá þar viðhlítandi umfjöllun. Ég vil beina því til hæstv. forseta og hv. forsætisnefndar að taka þetta mál til umfjöllunar út frá sjónarmiði þingsins, hvernig þingstörfum verður best háttað en ekki út frá kröfum einstakra hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnarinnar.