Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 15:56:42 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu sína. Hann kom aðeins inn á það að hæstv. fjármálaráðherra hafi hent fram einhverjum óútskýrðum ástæðum fyrir því að við ættum að samþykkja Icesave. Ég veit að þingmaðurinn hefur beitt sér fyrir því að fá allt upp á borðið í málinu og vill taka rökstudda yfirvegaða ákvörðun í þessu máli eins og öðrum.

Ég vildi beina þeirri spurningu til hans hvort hann harmi ekki eins og ég að þetta mál hafi verið sett í flokkspólitísk hjólför vegna þess að eins og skýrt hefur komið fram hjá forsætisráðherra telur hún að ríkisstjórnin verði að fara frá ef stjórnarliðar eru ekki allir á einu máli, ef ekki er einn vilji og einn hugur á bak við meiri hlutann.

Í annan stað langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann hafi ekki eins og ég áhyggjur af því hvernig farið er með stjórnarskrána í þessu máli. Það liggur fyrir að sú skuldbinding sem ríkið ætlar að taka á sig er algerlega óviss, við vitum ekki hvað kemur úr þrotabúi Landsbankans. Við vitum ekki hvort fyrirvari Ragnars H. Halls gengur eftir og reyndar má segja að það séu afar litlar líkur á að svo verði. En Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður, sem sá fyrirvari er kenndur við, hefur einmitt bent á að svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn beri afar litla virðingu fyrir stjórnarskránni eða geri a.m.k. afskaplega lítið með þær aðvaranir að lagasetningin brjóti í bága við stjórnarskrána.