Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 18:14:53 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti áhugavert að heyra hugleiðingar hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vegna þess að það sem sneri að forsetanum kann að skipta miklu máli nú á næstu dögum og jafnvel vikum, þegar kemur að þeirri spurningu hvort forseti hyggist skrifa undir það frumvarp sem hér liggur fyrir, verði það að lögum. Ég er í hópi þeirra sem voru þeirrar skoðunar að það hafi verið fullkomlega og algerlega rangt hjá forsetanum að neita að skrifa undir lög sem lýðræðislega kjörið Alþingi hafði samþykkt, ég tel að það ákvæði sem beitt var í stjórnarskránni hafi verið löngu úrelt og endurspeglað togstreitu á milli konungsvalds og þings og eigi sér enga réttlætingu í nútímaríkjum. Það segi ég vegna þess að ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að öllu valdi verði að fylgja ábyrgð og forseti er samkvæmt stjórnarskránni ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og því sé ekki tækt né fært að hann taki sér slíkt vald í hendur. En ég vil heyra frá hv. þingmanni ef það er mögulegt, frú forseti, frekari skoðun á þessu máli af því að ég get vel skilið þá Íslendinga sem gera þá kröfu til forsetaembættisins að það sé sjálfu sér samkvæmt. Úr því að ákveðið var að skrifa ekki undir lögin um fjölmiðlana á þeim rökum sem þar voru sett fram þá hlýtur að vera eðlileg krafa og virðist vera krafa þúsunda og jafnvel tugþúsunda Íslendinga að forseti neiti þá að skrifa undir þessi lög og gefi þjóðinni tækifæri til að kjósa um þetta mál. Ég hefði áhuga á að heyra aðeins frekar frá hv. þingmanni, frú forseti, um þetta mál.