Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 18:43:54 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi inna hv. þingmann eftir skoðunum hans á þeim þætti sem hann gerði einmitt að umtalsefni en það eru samskipti okkar við Norðurlöndin, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Breta og Hollendinga á þessum örlagaþrungnu tímum. Þeirri skoðun hefur verið hreyft úr ræðustóli Alþingis að menn gætu séð fyrir sér vaskari framgöngu íslenskra stjórnvalda í því máli. Með því er ekki verið að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi viljandi látið deigan síga eða ekki gert það sem þau töldu best og réttast heldur hitt að öðrum aðferðum hefði mátt beita.

Hafa menn t.d. horft til þeirrar aðferðar sem leikstjóri nokkur hér í bæ ákvað að beita til að reyna að rétta hlut okkar Íslendinga? Leikstjórinn sendi bréf til Dominique Strauss-Kahns og spurði eftir því sem hæstv. forsætisráðherra hafði margsinnis verið beðinn um að spyrja að: Er það svo að tafirnar sem hafa orðið á afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á málefnum Íslands eigi sér stoð í því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taki málstað Breta og Hollendinga og standi með þeim þjóðum í alþjóðlegri deilu gegn okkur Íslendingum? Svarið barst um hæl frá Dominique Strauss-Kahn til Gunnars leikstjóra þar sem kemur fram að svo sé ekki. Það hafði strax heilmikil áhrif á Norðurlöndunum í pólitíkinni því að þar með sátu Norðurlöndin uppi með að koma fram við okkur Íslendinga með miður drengilegum hætti hvað þetta varðaði, þó að menn skuli hafa í huga að við eigum að þakka mjög það vinarbragð sem þau hafa sýnt okkur með að vilja lána okkur fé á erfiðum tímum. Í ljósi langrar og góðrar sögu ríkjanna hefur þó alltaf komið okkur mjög á óvart og við höfum vart trúað að þessar þjóðir vildu standa með Hollendingum og Bretum í þessari deilu. Ég hefði áhuga á að heyra afstöðu hv. þingmanns, (Forseti hringir.) herra forseti, til þessa máls.