Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 18:56:01 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Álit Daniels Gros, sem við höfum verið að ræða hér, kom fram eftir að umræðan hófst. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þar er um að ræða efni sem á að brjóta til mergjar. Það er athyglisvert að enginn af þingmönnum stjórnarandstöðunnar eða sérfræðingum hennar hafði komið fram með þetta mál. Málið er nýtt. Þess vegna þurfum við hugsanlega að ræða það til þrautar í hv. fjárlaganefnd. Hvers vegna tekur þá hv. þingmaður þátt í skipulögðu málþófi til þess að koma í veg fyrir það sem hann sjálfur vill og segist vilja að málið verði rætt? Af hverju lætur hann teyma sig í fíflsku af þessu tagi? Af hverju lætur Framsóknarflokkurinn Sjálfstæðisflokkinn teyma sig og af hverju gerist Framsóknarflokkurinn af öllum flokkum statisti í leikriti Sjálfstæðisflokksins? Það gagnast þeim ekki neitt eins og hv. þingmenn sáu í skoðanakönnun kvöldsins. (Gripið fram í.)

Hitt vil ég segja að mér fannst hv. þingmaður vera heldur veikur og sýna nú þjónkun þessa flokks gagnvart Sjálfstæðisflokknum þegar ég spurði hann út í frammistöðu sjálfstæðisþingmanna á þingum með öðrum þingmönnum. Maðurinn sem stendur að baki (Forseti hringir.) hv. þingmanns stóð þó sína plikt, það gerðu ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um það? (Forseti hringir.)