Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 19:05:34 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við lifum á þannig tímum að það er auðveldara um að tala en í að komast að stjórna þessu landi. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim tilraunum sem ríkisstjórnin gerir til þess að koma einhverjum böndum á efnahagslífið, en betur má ef duga skal. Þetta mál tel ég vera í mjög röngum farvegi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Alþingi Íslendinga ákvað fyrir um ári síðan að fara samningaleiðina. Það þýðir hins vegar ekki að hægt sé að semja um hvað sem er og að Alþingi Íslendinga samþykki hvaða niðurstöðu sem er. Eftir ríkisstjórnarskiptin skipti þáverandi ríkisstjórn, minnihlutastjórnin, út mönnum í samninganefndinni og kom hún heim með samninga sem átti að keyra hér í gegn án þess að alþingismenn eða þjóðin fengju að sjá þá. Reyndar var þingflokkur Samfylkingarinnar var búinn að samþykkja að samþykkja þetta frumvarp án þess að sjá samningana og er það hreint með ólíkindum að það hafi verið upphaflega áætlunin sem ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu sér að fara eftir. Meiri hluti þingsins sagði nei við þessum vinnubrögðum, málið var tekið til sérstakrar skoðunar og því gjörbylt í þinginu með samstöðu þeirra þingmanna sem ekki létu bjóða sér slík vinnubrögð. Úr þeirri vinnu urðu fyrirvararnir til. Fyrirvararnir gerðu það að verkum að reynt var að bjarga því sem bjargað varð í þeirri stöðu sem ríkisstjórnin var búin að koma okkur í.

Nú er svo komið að fyrir þingi liggur annað frumvarp í sama máli, nýtt Icesave-frumvarp, þar sem fyrirvörunum sem nánast allt sumarþingið fór í að ræða, fyrir utan þá vinnu sem lögð var í Evrópusambandsaðildarumsóknina, hefur verið kastað á glæ. Í staðinn er kominn vaxtabyrði, ákvæði um vexti sem þjóðin ræður ekki við og þessi leið getur leitt til óendanlegra skuldbindinga fyrir þjóðina. Það er ekki forsvaranlegt, herra forseti.

Þá ber að geta þess að lærðir menn, eins og t.d. Sigurður Líndal lagaprófessor, halda því fram að Icesave-frumvarpið skerði fullveldi Íslands. Sigurður segir, með leyfi forseta, samkvæmt fréttum á mbl.is:

„... að það sé eðli dómsvalds að dómur sé endanleg niðurstaða máls. Sigurður telur að ráðgefandi álit eins og fram kemur í 2. gr. frumvarps um ríkisábyrgð vegna Icesave, ekki standast stjórnarskrána. Hluti af sjálfstæðisbaráttunni hafi verið að fá dómsvaldið til landsins, því sé slíkt samkomulag afsal fullveldis.“

Herra forseti. Þetta eru stór orð frá lærðum, merkum lagaprófessor og við getum ekki látið þetta sjónarmið fram hjá okkur fara. Um það verður að fjalla og úr því verður að skera vegna þess að við alþingismenn höfum svarið eið að stjórnarskránni og við getum ekki látið bjóða okkur að þetta mál fari í gegnum þingið með þessum efasemdum. Það er einfaldlega ekki í boði, herra forseti, að við högum okkur á þann hátt.

Ásakanir hafa dunið á okkur stjórnarandstöðuþingmönnum af hálfu þeirra fáu stjórnarliða sem talað hafa hér, þ.e. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, um að við höfum engar lausnir, að við stöndum einfaldlega í málþófi, eins og fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra rétt áðan, og höfum ekkert til málanna að leggja nema að reyna að eyðileggja fyrir ríkisstjórninni. Þetta er málflutningur sem ekki er forsvaranlegur í þessum sal, herra forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum vissulega lagt til ýmsar lausnir á þessu máli. Eftir að hæstv. fjármálaráðherra fór að tala með þessum hætti í þinginu hef ég lagt mig í líma við að koma upp í andsvörum við þá hv. þingmenn sem hér hafa talað og spurt þá hvort þeir hafi einhverjar lausnir, hvort þeir hafi einhverjar aðrar leiðir í huga en þá sem hér liggur á borðinu frá ríkisstjórninni. Allir hv. þingmenn sem ég hef spurt hafa svarað mér á skýran hátt og hafa uppi hugmyndir um hvað skuli gera í þessu máli, hvert haldið skuli frá þessum punkti.

Við erum í þessari stöðu í dag. Ríkisstjórnin er búin að skrifa undir einhverja samninga. Fyrir liggja fyrirvaralögin frá því í sumar. Þetta er staðan sem við erum í. Út frá henni þarf að vinna. Það eru allir hér í þessum sal meðvitaðir um það. Allir stjórnarandstöðuþingmenn eru meðvitaðir um stöðuna og ræða að mínu viti á málefnalegan hátt um þetta stærsta og eitt erfiðasta mál Íslandssögunnar.

Herra forseti. Ég tel enn að við alþingismenn getum bundist samtökum um að skoða þetta mál aftur ofan í kjölinn. Og ég trúi því að þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í því í sumar að vinna fyrirvarana við fyrsta frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem kollvarpaði því frumvarpi, hafi hugrekki að setjast aftur niður og reyna að finna aðra leið. Ég hef þá miklu trú á því fólki sem tók það að sér að bjóða sig fram á þessum erfiðu tímum til þess að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Ég veit, herra forseti, að þetta fólk er hugrakkt og ég hef fulla trú á því að hægt sé að setjast niður og finna aðra leið í þessu máli. Ég skora á þá hv. þingmenn, sem ég veit að eru að hlusta á mig, að íhuga þetta nú, líta aðeins í hjarta sitt og skoða hvort þeir ætli virkilega að styðja þetta mál ríkisstjórnarinnar án þess að leita annarra og betri leiða með öðrum þingmönnum.

Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa fullyrt að þetta sé besta leiðin í stöðunni. Ég er algjörlega ósammála því og ég veit að það eru aðrir þingmenn hér í salnum sammála mér. Ég þykist vita að það séu jafnvel þingmenn í stjórnarandstöðunni sem hafa líka ákveðnar efasemdir í þessum málum og ég hvet þá til þess að láta reyna á hvort ekki sé hægt að leita annarra leiða í þessu máli.

Herra forseti. Þegar maður talar í þessum stól á maður að tala á málefnalegan hátt og það hafa flest allir þingmenn gert í dag og ég fagna því. (Utanrrh.: Það er ekki satt.)

Ég hef ákveðna tillögu í þessu máli líkt og ég hef sagt hér. Ég legg til að við sleppum þessari umræðu. Það liggur ekkert á. Það hefur komið fram í dag að það liggur ekkert á þrátt fyrir að dómsdagsspárnar hafi dunið yfir okkur frá því að þetta mál kom hér fyrst inn í þingið í sumar frá ríkisstjórnarflokkunum. Hér hafa dunið yfir okkur heimsendaspár: Ef þetta er ekki klárað fyrir þriðjudaginn þá gerist þetta. Ef þetta er ekki klárað fyrir miðvikudaginn í næstu viku fer hér allt á hvolf. Það stenst ekki, herra forseti.

Það hafa verið leidd að því rök í þessum stól í dag að ekkert sé því til fyrirstöðu að fresta þessu máli og finna aðra leið. Ég hvet til þess að það verði gert. Það er af nógum öðrum málum sem verður að taka hér á dagskrá, eins og stjórnarandstaðan hefur margítrekað bent á og boðið upp á, að þessu máli verði einfaldlega frestað og farið í að skoða, ræða og afgreiða skattatillögur ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrumvarpið. Það væri mun nær að hafa þá forgangsröðun, herra forseti.

Jafnframt sendum við ákveðin skilaboð út í heim en að mínu mati hefur mistekist að senda þau skilaboð út í heim að við Íslendingar ráðum ekki við þessar skuldbindingar. Alþingi þarf að senda frá sér einhvers konar yfirlýsingu þar sem það er harmað að regluverk og stofnanaverk hér á Íslandi hafi ekki verið tilbúið til að taka á þessu bankahruni, að það hafi ekki verið tilbúið að taka á þeim göllum sem hið samevrópska regluverk fól í sér. Afleiðingarnar af því hér á Íslandi eru geigvænlegar. Ég tel að ef við förum og höldum okkar málstað á lofti gagnvart erlendum stjórnmálamönnum, gagnvart hinum evrópsku þjóðum sem hafa verið í samstarfi við okkur um árabil, munum við ná árangri.

Okkar vandi felst í því að hér var samevrópskt regluverk sem greip ekki hið risastóra íslenska bankakerfi. Það er ekki sanngjarnt og það þykir það engum, hvort sem þeir búa hér, hvort sem þeir eru hollenskir sparifjáreigendur eða breskir sparifjáreigendur sem töpuðu fé sínu, það finnst engum það sanngjarnt, ég get fullyrt það. Ef þeir fá að heyra rökin fyrir því að hinn venjulegi almenni skattgreiðandi hér á landi þurfi að greiða og bera þessar byrðar og börnin okkar muni þurfa að bera þessar byrðar hér í framtíðinni, þykir engum það sanngjarnt. Ég fullyrði að það þykir engum það sanngjarnt að hvert mannsbarn á Íslandi skuldi samkvæmt þessum samningum tvær milljónir króna. Ég tel að það sé algjörlega augljóst að við eigum að fara út í lönd og halda á lofti okkar málstað.

Þessi ógnarbyrði vegna falls einkafyrirtækja sem störfuðu á samevrópskum markaði og samkvæmt samevrópsku regluverki veldur þjóðinni vissulega áhyggjum og gremju. Alþingi Íslendinga þarf að biðja Breta og Hollendinga um að líta til þessa við mat á því hvað teljist eðlilegar málalyktir Icesave-málsins. Það er vel reynandi, herra forseti, að fara þessa leið, að fresta þessu máli, að leita eftir fundi með leiðtogum þessara þjóða, Bretlands og Hollands, og jafnframt að fá aðrar evrópskar þjóðir eða einhvern þriðja aðila til þess að leita sátta í þessu máli. Ef það tekst ekki, herra forseti, verða Bretar og Hollendingar einfaldlega að leita réttar síns fyrir dómstólum. Ég tel það vera réttara en að við samþykkjum þetta mál eins og það liggur fyrir í dag vegna þess að ég tel að enginn dómstóll muni dæma okkur (Forseti hringir.) til þess að greiða meira en þessi leið ríkisstjórnarflokkanna gerir ráð fyrir.