Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 19:29:28 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir skelegga ræðu um þetta mál. Hún er löglærð og greinilega vel að sér í þessum lögfræðilegu og stjórnarskrárlegu vafaatriðum. Það var ágætt að vera minntur á hægláta Ameríkumanninn. Hægláti Ameríkumaðurinn var drifinn áfram af mikilli hugsjón um það að gera heiminn betri og í einfeldni sinni endaði hann á því að gera heiminn miklu verri. Þetta er e.t.v. lýsandi dæmi um framgöngu hæstv. fjármálaráðherra í Icesave og ríkisstjórnarinnar. Þau virðast drifin áfram af einhverri einfeldnislegri hugsjón um að þau geti bætt heiminn en hafa endað á því að gera hann verri. Stjórnarskráin er komin með spurningarmerki úti um allt, framtíð efnahagsmála á Íslandi er orðin stórt spurningarmerki o.s.frv.

Mig langar að spyrja hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um atriði er snúa að stjórnarskránni. Núna eru uppi mikil vafamál og þó að menn hafi nokkurn veginn skipst í lið á fundi með fjárlaganefnd í gær eru lögspekingar alls ekki á sama máli og vafaatriðin virðast vera það mikilvæg að það þurfi með einhverjum hætti að leysa úr þeim. Telur hún hægt að leysa úr núverandi frumvarpi, þessu svokallaða Icesave-máli, varðandi stjórnarskrána með sómasamlegum hætti? Eða verður einfaldlega að draga það til baka og halda sig við það sem var gert hér í sumar?