Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 19:31:22 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Já, hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þetta andsvar. Það kvikna öll viðvörunarljós þegar virðulegir lagaprófessorar, eins og Sigurður Líndal, koma fram með athugasemdir sem þessa. Ég tel því ekki hægt að fara á handahlaupum í gegnum þá umræðu. Ég hallast að því að hann hafi nokkuð til síns máls og þess vegna get ég ekki samþykkt að þetta frumvarp fari hér í gegn og verði að lögum. Það kemur ekki til greina þegar af þeirri ástæðu.

Hvað á að gera? Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni. Ég tel ekki forsvaranlegt að samþykkja þetta frumvarp. Ég tel að alþingismenn eigi að leita annarra leiða en að fara með þetta hér í gegn. Ég veit til þess að fjárlaganefnd er aðeins búin að skoða málið og búin að fá til sín einhverja gesti, en það er ekki fullnægjandi að mínu mati. Miðað við hvernig fréttaflutningurinn hefur verið af þeim fundi þá hefur hann verið, að sumir mundu telja, hálfeinhliða. Það er í rauninni þannig, herra forseti, að okkar stærsta skylda er að rækja þær starfsskyldur sem við höfum tekið að okkur. Við höfum öll svarið eið að stjórnarskránni, öll sem hér sitjum, og við getum ekki tekið svona athugasemdir og leitt þær bara hálfsofandi fram hjá okkur. Það er ekki hægt og við höfum ekki heimild til þess, hæstv. forseti.

Ég tel að staðan sé sú, herra forseti, að ef við höfnum því frumvarpi sem hér liggur eru í gildi lögin frá því í sumar, fyrirvaralögin eru í gildi, nema við ákveðum að fella þau úr gildi.

En eins og ég fór yfir í ræðu minni tel ég augljóst að fresta eigi einfaldlega afgreiðslu þessa máls í dag, leita annarra lausna þar sem þessi er alls ekki fullnægjandi, fara út í heim til að kynna málstað okkar enn og aftur og gera það á fullnægjandi hátt og sannfæra hið samevrópska (Forseti hringir.) kerfi um það að við getum ekki ein borið þessar byrðar.