Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:00:56 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti leitaði heimildar þingsins í morgun til að halda kvöldfund. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. forseta hvort einhver áætlun liggur fyrir um það hversu lengi sá fundur eigi að standa. Það hjálpar þingmönnum, eins og hæstv. forseti veit, að skipuleggja tíma sinn að hafa einhverja hugmynd um hvort fundur stendur til tíu, ellefu eða tólf eða til sex í fyrramálið og væri gott ef hæstv. forseti gæti upplýst um það. Ég minni á að nefndarfundir eru boðaðir kl. 8.30 í fyrramálið.

Í annan stað var ég að velta fyrir mér hvort ekki væri hægt að nýta heimild í þingsköpum til þess að hleypa hæstv. utanríkisráðherra að. Nokkuð hefur verið rætt um mál sem heyra undir hans svið, svo sem samskipti við erlendi ríki og samskipti við ESB. Komið hafa fram athyglisverðar upplýsingar í dag um grímulaust ofbeldi gegn Íslandi af hálfu ESB (Forseti hringir.) og væri rétt að hæstv. utanríkisráðherra fengi tækifæri til að komast á mælendaskrá til að ræða þetta.