Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:02:10 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta þeirrar sömu spurningar og hv. þingmaður spurði hér varðandi kvöldfundinn, ekki það að sjálfsagt er að nota tímann vel. Ég vil þó benda á það að eftir því sem ég best veit, eftir því sem ég náði að kynna mér, eru nú tiltölulega fáir af þeim sem höfðu áhuga á að sitja hér í kvöld mættir, en þeir koma örugglega á eftir. Ég vil einnig velta því upp hvort forseti sjái ástæðu til að funda, hugsanlega þá á morgun, með formönnum þingflokka til að fara yfir restina af vikunni, hvernig forseti sér fyrir sér að störfin verði. Eins og við vitum er gert ráð fyrir, ef ég man rétt, nefndadegi á föstudag og mikilvægt að upplýst verði um það eins fljótt (Forseti hringir.) og hægt er.