Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:57:30 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kalla hæstv. samgönguráðherra góðan að vera með það á hreinu hversu margir kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum, það er nú alveg til fyrirmyndar. En svarið við spurningunni er ákaflega einfalt: Ég hefði viljað að allir þessir innstæðueigendur hefðu fengið inneign sína að fullu bætta og að auki einhverjar bætur fyrir að hafa þurft að ganga í gegnum það að bankinn færi í þrot. Ég hefði gert ýtrustu kröfur til þessa breska banka og hverra þeirra sem ég hefði talið að gætu verið ábyrgir fyrir honum. Ég er hins vegar viss um að bresk stjórnvöld hefðu mætt þessari kröfu af fullri hörku og ekki látið mig vaða yfir sig, ekki sagt sem svo: Ja, Sigmundur segir að þetta verði að vera svona og farið svo til breska þingsins og sagt: Ég reyndi nú að útskýra að þetta væri ekki svona, við ættum ekki að bera fram þessar kröfur, en Sigmundur hlustaði ekki. Sigmundur sagði: Þetta verður að vera svona og því verðum við að ganga frá þessu. Ætli umræðan hefði verið þannig í breska þinginu? Það held ég varla. (Utanrrh.: Sigmundur hefur alltaf rétt fyrir sér.)