Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:13:09 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. samgönguráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni áðan. Ég held að það hafi verið upplýsandi að fá þá til að skiptast á skoðunum, þótt í andsvörum væri, við ræðumenn stjórnarandstöðunnar og ég vonast til þess að við sjáum meira af því. Ekki þætti mér verra ef þeir mundu svara einhverjum þeirra fyrirspurna, virðulegi forseti, sem ég mun beina til þeirra.

Þau voru mjög athyglisverð, andsvörin sem komu fram áðan við ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er mjög athyglisvert þegar utanríkisráðherra þjóðarinnar segir fullum fetum að efnahagslegu fyrirvararnir séu inni. Þar sem ég er að tala um hæstv. utanríkisráðherra væri ekki verra ef hann mundi hlusta því að hér er ég að túlka það sem hann sagði áðan. Ef hann gerir það ekki nær það auðvitað ekki lengra en mér þykir það mjög alvarlegt mál þegar hæstv. utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar fullyrðir í þingsal að efnahagslegir fyrirvarar séu í þessu frumvarpi, inni í nýju samkomulagi. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók því frekar létt en í mínum huga er það grafalvarlegt að hæstv. ráðherra segi það úr þessum stól. Mér hefur oft fundist hæstv. fjármálaráðherra vera nokkuð frjálslegur í þessu en hann gekkst þó við því hér í dag að a.m.k. hluti af fyrirvörunum væri farinn út. Hann orðaði það að vísu þannig að allir fyrirvararnir væru inni nema vextirnir, eins og það væri eitthvert smámál en það er stærsta einstaka málið.

Allir sem hafa skoðað þetta vita að það sem er farið út úr þessu er fyrirvarinn um að ríkisábyrgðin falli niður 2024. Með öðrum orðum heldur ríkisábyrgðin áfram eftir 2024. Það er ekki lítið mál. Sá fyrirvari var settur inn til að sjá til þess að við værum ekki með ríkisábyrgð út í hið óendanlega.

Fyrirvarinn um að greiða ekki meira en 6% af hagvexti þjóðarinnar er áfram inni að nafninu til. Þó er komið það ákvæði sem hæstv. fjármálaráðherra benti á, að Ísland þarf alltaf að greiða vexti. Það í gerir þennan fyrirvara að nákvæmlega ekki neinu.

Þegar ég sagði að það væri gott að hæstv. ráðherrar kæmu fram áðan fannst mér mjög óheppilegt að hæstv. samgönguráðherra skyldi nota samlíkinguna úr Biblíunni. Mér þótti það mjög óheppilegt en það segir kannski sína sögu. Við skulum ekki gleyma því að þingmenn og frambjóðendur Alþýðuflokksins og þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar töluðu um EES-samninginn sem allt fyrir ekki neitt. Við fengum allt og gáfum ekkert til baka. Það var málflutningurinn. Við skulum ekki gleyma því heldur að þessir sömu aðilar sögðu fyrir kosningar að góðærið sem var hér væri ekki neinu öðru að þakka en EES-samningnum. Þær fullyrðingar heyrðust endalaust.

Ég verð að viðurkenna að þegar við erum að taka á þessu erfiða máli sem er hreint og klárt afsprengi þess að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið — hvort sem okkur líkar það betur eða verr, við þurftum að taka hér upp evrópska tilskipun — ætlaðist ég til þess að þessir sömu forustumenn mundu aðeins endurskoða hug sinn, aðeins mundi kannski sljákka í þeim, að það væri ekki endilega allt stórkostlegt og fullkomið sem kæmi frá Evrópusambandinu. Nei, það var búin til réttlæting sem gengur einhvern veginn út á það að við eigum að greiða þetta, það sé einhvers konar siðferðisskylda hjá okkur að greiða þennan reikning sem er til kominn eftir þá samninga sem gerðir hafa verið.

Allt liggur þetta á þeim grunni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið og skuldbundum okkur til að taka upp ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins. Við sömdum þær ekki, virðulegi forseti.

Ég hlustaði af athygli á ræðu hæstv. fjármálaráðherra í dag. Þar fullyrti hann að allir fyrirvararnir væru inni nema sá með vextina. Við vitum að það er einfaldlega ekki rétt. Mér þykir skrýtið ef jafnvel á þessum tímamótum, eftir alla þessa umfjöllun, trúi hæstv. ráðherrar, hvort sem það er hæstv. fjármálaráðherra, samgönguráðherra eða utanríkisráðherra, þessu virkilega. Það eitt og sér er mjög alvarlegt að þeir fari um og segi ósatt. Þetta er hreint og klárt ósatt og þeir geta aldrei fundið rök fyrir þeim fullyrðingum sínum að fyrirvararnir séu allir inni. Ef fyrirvararnir væru allir inni, af hverju værum við þá að breyta lögunum? Af hverju stöndum við þá í þessu? Þetta er svo yfirgengileg hugsanavilla. Af hverju er verið að bjóða okkur upp á þetta ef þeir trúa að fyrirvararnir séu inni?

Hér eru hæstv. ráðherrar á göngunum og það væri æskilegt að þeir svöruðu þessari spurningu. Hún er mjög einföld. Það væri æskilegt að þeir kæmu í andsvar við mig og svöruðu henni. Ef þeir treysta sér ekki til þess er ég tilbúinn að vaka með þeim og bíða eftir því að svarið við spurningunni komi. Þetta er mjög einfalt: Ef fyrirvararnir eru inni, af hverju erum við að breyta lögunum? Við getum bara sent skeyti, tölvupóst, úr því að þetta er allt svona eins og Bretar og Hollendingar vilja hafa þetta, fyrirvararnir sem við sömdum. Þá þurfum við ekki að standa í þessu.

Aftur að því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í dag. Hann sagði að AGS væri í gíslingu Icesave og að það væru skriflegar sannanir fyrir því. Við erum allt í einu komin í harða deilu á milli hæstv. fjármálaráðherra Íslands og framkvæmdastjóra AGS þar sem framkvæmdastjóri AGS segir: Heyrðu, nei, nei, þetta er misskilningur, þetta tengist ekki neitt, en hæstv. fjármálaráðherra segir: Víst, víst skal þetta tengjast.

Er þetta ekki orðið eitthvað öfugsnúið? Ef framkvæmdastjóri AGS segir: Heyrðu, þetta tengist ekkert — tökum hann þá á orðinu. Þetta er búið að koma í öllum fjölmiðlum. Hann þarf þá að draga það til baka. Þetta er í það minnsta engin röksemd fyrir því að klára þetta núna með hraði. Enda segir hæstv. fjármálaráðherra í dag að þeir hafi ekki getað lofað því hvenær þingið mundi afgreiða þetta. Þeir gátu ekki lofað því. Þeir miðuðu við lok nóvember, en gátu ekki lofað því. Og hann kom ekki með nein efnisleg rök fyrir því að við ættum að klára þetta núna. Hann talaði um endurskoðun AGS í janúar. Framkvæmdastjóri AGS hefur talað. Hann talaði um matsfyrirtæki. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór ágætlega yfir það og sömuleiðis að erlendir bankar og erlend stjórnvöld væru alltaf að spyrja um Icesave. Nema hvað? Það væri eitthvað óeðlilegt ef þeir aðilar sem hitta íslenska ráðamenn og eru á annað borð eitthvað búnir að kynna sér hvað er í gangi á Íslandi spyrðu ekki um Icesave.

Síðan sagði hæstv. ráðherra að það hefðu verið grímulausar hótanir landa ESB um að við skyldum hafa verra af ef við afgreiddum ekki Icesave. Þetta sagði hæstv. ráðherra í dag.

Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra sagt að þetta væri nokkuð frá síðasta hausti. Sömuleiðis kallaði hæstv. ráðherra fram í áðan og sagði að þetta hefði verið í haust og var að vísa til þessa. Hann sagði það ekki í ræðunni, en segir það núna. Gott og vel, annaðhvort á eftir að upplýsa okkur um eitthvað eða þetta eru bara ein af þeim rökum sem við getum alveg tekið út af borðinu. Að vísu held ég, virðulegi forseti, að stærsta einstaka ástæðan sé hræðsla Samfylkingarinnar og fylgiflokks hennar, Vinstri grænna, við Evrópusambandið.

Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að þannig sé það. Það er kannski dæmigert og óheppilegt að þegar við ræðum um Evróputilskipanir skuli hæstv. samgönguráðherra sjá ástæðu til að (Forseti hringir.) bera það saman við hina helgu bók.