Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:32:01 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar varðandi Norðurlandasamstarfið. Að sjálfsögðu verðum við að komast til botns í því hvernig þessi mál raunverulega standa hvað Norðurlöndin varðar. Það er ekki hægt að skilja þannig við það að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands fullyrði að Norðurlöndin vilji ekki veita okkur neina lánafyrirgreiðslu þrátt fyrir samninga þar um nema við semjum við Breta og Hollendinga á þeirra forsendum. Það þarf að krefjast þess opinberlega að fá svör við þessu og ef svörin eru á þá leið sem íslenska ríkisstjórnin hefur haldið fram þarf að endurskoða það samstarf.

Ég vildi nefna það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er varðar það sem fulltrúar Íslands, ráðherrarnir, raunverulega trúa og hvort heppilegt sé að þeir séu talsmenn Íslands ef þeir hafa ekki trú á málinu eða ef þeir trúa raunverulega að fyrirvararnir séu til staðar. Er von á góðu ef þeir sem eiga að verja hagsmuni þjóðarinnar eru í rauninni miklu frekar sammála þeim sem er verið að semja við fyrir okkar hönd en eigin þjóð? Mundi til að mynda hv. þingmaður fela einhverjum sem hann vissi að væri harður samfylkingarmaður að gæta sinna hagsmuna og síns flokks í kosningabaráttu og vera kosningastjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef hann vissi að raunverulega væri viðkomandi samfylkingarmaður og vildi helst að Samfylkingin næði hreinum meiri hluta? Er þetta ekki alveg hræðileg aðstaða fyrir okkur ef ráðherrarnir trúa þessu, eins og þeir virðast gera ef dæma má af ræðum þeirra hér, að við eigum bara að borga þetta og ekki vera með vandræði og það sé búið að gera miklu meira en nóg fyrir okkur hvað fyrirvarana varðar?