Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:36:26 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst nokkur orð til viðbótar um Norðurlöndin. Ég held að mikilvægt sé að halda því til haga að ef á daginn kæmi að stjórnvöld þeirra ríkja hefðu hagað sér með þeim hætti sem íslenska ríkisstjórnin heldur fram væru ekki aðeins Íslendingar mjög ósáttir við það heldur líka íbúar þeirra landa, til að mynda Noregs. Ég brá mér nú til Noregs um daginn eins og frægt varð og þar nefndu mjög margir að Íslendingar hefðu veitt Norðmönnum aðstoð í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Þeir mátu það mikils og sögðu að þetta væri vel þekkt í Noregi og gerðu okkur jafnframt algjörlega ljóst að almenningur í Noregi, og að því er fólk vildi meina meiri hluti þingmanna, vildi ekki sjá að Noregur tæki þátt í einhverjum þvingunaraðgerðum gegn Íslandi. Þvert á móti væri mikill meiri hluti fyrir því að Norðmenn gerðu hvað þeir gætu til að koma Íslendingum til aðstoðar. Þetta hafa íslensk stjórnvöld því miður ekki viljað nýta.

Hitt er varðandi Evrópusambandið. Nú eru að sjálfsögðu einlægir Evrópusambandssinnar í öllum flokkum en mér hefur þótt einn reginmunur vera á Evrópusambandssinnum í Samfylkingunni og til að mynda í Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki. Ef við byrjum á Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki er þar fólk sem færir rök fyrir því að það telji hagsmunum Íslands betur borgið í Evrópusambandinu. Í Samfylkingunni virðast þetta aftur á móti nánast vera trúarbrögð. Eins og hv. þingmaður nefndi á þetta að leysa alla hluti á einhvern óskiljanlegan hátt. Þess vegna hefur mér virst að ekki aðeins séu ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar að reyna að þóknast Evrópusambandinu með því að gera hvað sem það biður um, heldur sé staðan nánast þannig að þeir vilji færa fórnir til að gleðja Evrópusambandið. Sjáið, þetta færum við ykkur. Þannig birtist m.a. þetta Icesave-mál, þar vilja menn nánast ganga lengra en gert var ráð fyrir að Íslendingar mundu nokkurn tímann gera.