Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:38:35 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar kemur að Norðurlöndunum. Ég veit að fyrir síðustu þingkosningar í Noregi var mikið mál þegar þáverandi og núverandi stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu eftir því hvort það gæti virkilega verið að norsk stjórnvöld væru að aðstoða Breta og Hollendinga og Evrópusambandið í þessari deilu gegn Íslendingum. Almenningur í þessum löndum er ekki tilbúinn til þess að ríkið breytist í innheimtustofnun í þessu þegar við erum að berjast gegn ofurefli. Örugglega ekki í Noregi og ég vil ekki trúa því að svo sé í hinum löndunum heldur. Það er þó alveg rétt að þetta hefur ekki verið kynnt og menn hafa ekki notað þau tæki sem við höfum til þess að kynna okkar málstað þar til að þessir aðilar geti hjálpað okkur. Segjum að Svíar hafi beitt sér með þessum hætti, hvað á hann við með röksemdum um að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að þeir eru í forustu þar? Það er mjög sérkennilegt.

Ég er einnig hjartanlega sammála því þegar hv. þingmaður ber saman þá sem vilja ganga í Evrópusambandið í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum miðað við þá sem eru í Samfylkingunni. Að vísu er mikið af samfylkingarmönnum líka í forustu í akademíunni. Það er skelfilegt oft og tíðum að hlusta á málflutning þessa fólks, það minnir stundum á sértrúarsöfnuð. Þegar forustumenn Samfylkingarinnar fara líka að vísa í ESB og tengja við hina helgu bók, það er kannski enn óheppilegri tenging.

Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, að hér segja menn: Forustumenn ríkisstjórnarinnar vilja hjálpa til við þingstörfin og taka þessa umræðu. Ég spurði hæstv. ráðherra sérstakra spurninga en enginn þeirra treysti sér í andsvar þótt allir hafi hlustað á það. Spurningin var mjög einföld: (Forseti hringir.) Af hverju erum við að þessu ef fyrirvararnir eru þarna allir? Af hverju höldum við okkur ekki við lögin? Ég var með aðrar spurningar handa ráðherrum við önnur tilefni en þeir svara ekki. (Forseti hringir.) Ég mun fylgja þessu eftir, virðulegi forseti.