Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:42:35 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þetta. Þótt það hljómi undarlega þá sakna ég þess að sjá ekki hæstv. forsætisráðherra hér. Mér hefði fundist að hún þyrfti að vera allmikið við þessa umræðu því þetta er nú umræða sem varðar mjög mikið, svo vægt sé nú tekið til orða, hag og framtíð þjóðarinnar. Mér fyndist eðlilegt að forsætisráðherra sæti hér lungann úr umræðunni og hlustaði á þingmenn og tæki e.t.v. meiri þátt en hún þegar hefur gert.

Frú forseti, ég óska þess að það verði athugað hvort hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar gæti hugsað sér að vera viðstödd þessa umræðu, því hún er búin að vera allgóð að mínu viti í flestum tilfellum. Það er nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra geti komið í andsvör og tekið þátt í umræðunni.