Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:45:18 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er nú kaldhæðnislegt ef menn ætla að halda sig við að nefndafundir verði klukkan 8.30 í fyrramálið að norræna velferðarstjórnin, sem er búin að sækja um aðild að ESB, er búin að brjóta tilskipun Evrópusambandsins um lágmarkshvíld. Þá er það bara spurningin hvort vökulögin frá 1921 um sex tíma lágmarkshvíld, haldi. Að vísu voru þau hugsuð fyrir sjómenn en hæstv. fjármálaráðherra hefur nú vísað til þess að við séum áhöfn á hans skipi þótt enginn viti nú nákvæmlega hvernig sú samlíking er til komin.

En, virðulegi forseti, ég held að það væri kannski ekkert vitlaust að fá að vita hversu lengi við eigum að funda hér. Ég vil nú hvetja hæstv. ráðherra, í það minnsta þá sem eru hérna og töluðu digurbarkalega fyrir nokkru síðan, að svara spurningum sem til þeirra er beint. Vísa ég hér til þeirra sáraeinföldu spurninga sem ég beindi til (Forseti hringir.) þeirra rétt áðan.