Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:46:31 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög brýnt að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umræðuna. Áðan upplýsti hæstv. utanríkisráðherra að hann hefði ekki almennilega fylgst með þar sem hann talaði um að staðan væri góð og að meðaltali gengi þetta ágætlega. Það er einmitt það sem við erum að fara í gegnum hérna í allri þessari umræðu, það er áhættan sem getur komið upp. Við höfum enga vantrú á íslensku atvinnulífi eða íslenskri þjóð. Þjóðin hefur staðið sig ljómandi vel, en ef hagvöxtur verður lítill, mikill fólksflótti verður frá landinu, sem er reyndar byrjaður, megum við ekki lenda í þeirri stöðu að hér verði ævarandi fátækt. Þetta er ekki svartsýni því að það getur vel verið að þetta gangi vel, en við erum að ræða um það ef það skyldi ganga illa og fyrirvararnir í sumar voru til að hindra það að þjóðin lenti í slíku. Meðan menn skilja þetta ekki (Forseti hringir.) vil ég endilega hafa þá viðstadda umræðuna.