Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:50:30 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek hér til máls um fundarstjórn forseta og fundarstjórn þessa fundar. Þingið hefur nú staðið í bráðum tólf klukkustundir og þingmenn verið lengi við í dag. Margir þingmanna hafa verið hér síðan hálfníu í morgun, þeir byrjuðu hér á nefndafundum. Það er ekki fyrirséð hvað menn munu vinna hér lengi í dag. Ég talaði tvisvar sinnum fyrr í dag um að það væri kominn tími til að koma skikki á vinnulag og vinnubrögð á Alþingi Íslendinga. Ég vil bara ítreka það í þessum tilmælum mínum um fundarstjórn forseta að það verði gert og þessum fundi verði frestað hið snarasta til morguns. Þetta er óhemjuvinsælt mál og það eru margir sem vilja tala um það og það oft. Það er enginn hörgull á fólki á mælendaskrá þannig að það er engin hætta á að málið klárist. Við skulum reyna að skipuleggja dagskrána með þeim hætti að fólk geti hvílst vel á milli funda og komi þá glatt til vinnu á morgun.