Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 22:00:50 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:00]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mikið búið að ræða um það á síðustu dögum í þessari pontu að skipulag vanti á þinghald og það má vel vera að svo sé. Þess vegna skora ég á stjórnarandstöðuþingmenn sem halda uppi þessu málþófi að mínu viti, svo sem sjá má á skipulagi þeirra, að koma með dagskrá um hvað þeir ætli að tala lengi og þá er einfaldlega hægt að skipuleggja þingstörfin með það í huga. Geta þeir sagt hvað þeir ætla að tala lengi, geta þeir sagt það í klukkutímum, geta þeir sagt það í dögum, geta þeir sagt það í vikum? (IllG: Þar til málið er fullrætt.) Ef það er hægt, hv. þm. Illugi Gunnarsson, er hægt skipuleggja allt starf hér miklu betur. Það væri mjög frumlegt af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna, akkúrat hér og nú á öðrum degi desembermánaðar, að setjast niður og áætla eins og fullorðnir menn hvað þeir ætla að tala lengi, í hve marga daga, í hve margar vikur og í hve marga mánuði ef því er að skipta, þá gæti skipulag legið fyrir (Forseti hringir.) og þá gæti líka legið fyrir hvort menn ætli að tala og þurfi að tala fram á nótt. (IllG: Svo er.)