Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 22:21:47 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágætisinnlegg áðan. Eftir hrunið sem varð í Færeyjum í byrjun 10. áratugarins var eitt af mínum fyrstu verkum sem hagfræðingur að starfa fyrir nefnd sem forsætisráðherra Danmerkur skipaði til þess að gera úttekt á bankahruninu. Það sem við komumst fljótlega að var að búið var að kippa stoðunum algerlega undan atvinnugreinunum á eyjunum, atvinnuleysi var gríðarlegt og á tiltölulega skömmum tíma fluttu um 20% eyjaskeggja burt, flestir til Danmerkur en einhverjir fóru til annarra landa, m.a. til Íslands.

Það sem verra var var að þessir miklu fólksflutningar áttu sér að mestum hluta stað hjá ungu fólki sem hafði haldið uppi atvinnulífinu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því í fyrsta lagi hvort hann telji að hætta sé á að þetta geti gerst hérna og hvort hann hafi orðið var einhverra merkja um að þetta sé að gerast og í öðru lagi, hvort hann þekki einhver dæmi frá öðrum þjóðum um að skertir efnahagslegir möguleikar til lengri tíma litið hafi leitt til viðlíka fólksflutninga og við sáum í Færeyjum í byrjun 10. áratugarins.