Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 22:30:06 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Lágt raungengi þýðir einfaldlega verri lífskjör, það verður minna úr að spila og meiri fátækt en verið hefur. Það er það sem lágt raungengi þýðir.

Ég er einn af þeim sem hafa miklar efasemdir um gögn Seðlabankans og í huga mínum jaðra þau við skáldskap. Það er ekki nokkur einasta leið að hér verði 163 milljarða kr. afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum á hverju ári að meðaltali næstu tíu árin. Það hefur aldrei gerst í Íslandssögunni. Mesti afgangur á einu tilteknu ári hefur verið um 22 milljarðar. Þessar tölur Seðlabankans eru því ekki raunhæfar. Og ein af meginástæðunum fyrir því að ég er á móti þessu máli er að við höfum ekki fengið upplýsingar um hvernig á að borga þessar skuldir. Það hefur hvergi komið fram. Það sem Seðlabankinn gerir líka er að hann reiknar einhvern hagvöxt sem enginn veit á hverju á að byggjast úr því að innflutningur á að vera í lágmarki og raungengið á að vera í lágmarki. Spár Seðlabankans virðast vera einn hrærigrautur. Hann vísar einnig til þess að stöðvun hafi verið í Japan í 20 ár vegna mikilla skulda ríkisins. Þá er spurningin: Hverju stöndum við frammi fyrir? Við stöndum frammi fyrir því sama. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum skuldum ríkisins. Þó að menn séu að hræra saman út og suður skuldum þjóðarbúsins annars vegar og skuldum ríkisins hins vegar þá eru það skuldir ríkisins sem skipta meginmáli. Þær eru gríðarlegar og þær eru það miklar að við komumst ekki fram úr þeim.

Verðhjöðnun er líkleg úr því að hér verður áfram stöðnun. Við búum nú þegar við verðhjöðnun á fasteignamarkaði og hún hefur einfaldlega gert það að verkum að fasteignamarkaðurinn er algerlega frosinn. Það er ekki nokkur einasta leið að eiga viðskipti á fasteignamarkaði. Þetta mun gerast á öðrum sviðum efnahagslífsins ef verðhjöðnun verður. Það halda allir að sér höndum og stöðnunin einfaldlega botnfrýs.