Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 22:32:58 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem ég hef áhyggjur af, þ.e. að við séum að stefna inn í hugsanlega viðvarandi langt tímabil fátæktar, alla vega miðað við það sem við höfum vanist á undanförnum árum.

Það er alltaf ágætt að nota meðaltalstölur. Að meðaltali værum við sennilega öll ljóshærð, bláeyg og 1,75 á hæð, sem ég hefði svo sem ekkert á móti, en það skiptir mig samt engu máli í raunveruleikanum. Það er raunveruleikinn sem skiptir máli. Hverjar eru staðreyndirnar? Staðreyndirnar eru einfaldlega þær að meðaltalstölur út og suður í spám Seðlabankans skipta ekki máli. Við þurfum að fá upplýsingar um hvernig á að borga, með hvaða peningum og hvaðan peningarnir eiga að koma. Það hefur ekki verið skýrt út. Það er einfaldlega ein af staðreyndum málsins. Þangað til það verður skýrt út mun ég halda þessum gögnum Seðlabankans til haga sem benda til þess að hér sé einfaldlega um ævintýralegar fabúleringar að ræða.