Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 22:50:49 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er augljóst af orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann lítur svo á að magnið sé meira atriði en gæðin. Ég staldraði í nokkur ár við í blaðamennsku og átti því láni að fagna að hjálpa nokkrum ungmennum að draga til stafs í þeim fræðum. Þar var það jafnan svo að ef menn töluðu eða skrifuðu of langt mál var það yfirleitt vegna þess að menn komust ekki að aðalatriðunum. Ég held að það sé vandamál viðkomandi þingmanns að hann hefur ekki komist að aðalatriðunum. Hann fer um víðan völl í þessu máli og væri betra að hann kæmi sér beint að aðalatriðunum í ræðum sínum.