Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 23:07:52 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um að skuldsetning komi ekki til með að leysa þann efnahagsvanda sem við glímum við. Ég bendi á að það eina jákvæða sem hefur komið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er að hann viðurkenndi að það sem hjálpaði Íslendingum væri að þeir hefðu sína eigin mynt en gallinn væri hversu hrikalega skuldsett þjóðin væri. Hann tók svo m.a. fram að vandi Letta væri kannski fyrst og fremst fólginn í því að vera tengdir Evrópusambandinu, vera ekki með sjálfstæða mynt og hafa enga leið til að fella gengið til þess að örva innlendan iðnað eða hvað sem menn vilja gera með því.

Mig langar að halda áfram með umræðuna um matsfyrirtækin. Mér finnst hún svolítið stór punktur, hún er hluti af þeim hræðsluáróðri að halda því fram að eitthvað hræðilegt gerist af því að matsfyrirtækin eru ekki búin að gefa álit á stöðunni á Íslandi. Menn segja að það verði að klára Icesave. Eins og hv. þingmaður komst að orði skiptir öllu máli hvernig málið verður leyst. Ef við skuldsetjum okkur upp úr öllu valdi hljótum við, ef matsfyrirtækin eru að sinna starfi sínu, að fá hræðilega einkunn. Þau meta lánshæfismat þjóðarinnar og það hlýtur að vera eins og hjá einstaklingum, því skuldsettari sem einstaklingur, fyrirtæki eða þjóð er þeim mun lægra hlýtur lánshæfismatið að vera. Það blandast engum hugur um að skuldsetning þjóðarinnar er algerlega að ríða henni (Forseti hringir.) að fullu.

Við megum (Forseti hringir.) alls ekki auka á vandann. Ef við gerum það ekki (Forseti hringir.) getum við hugsanlega komist út úr honum.