Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 23:34:18 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlast auðvitað ekki til þess að hv. þingmaður hafi mikla spádómsgáfu, ekki frekar en aðrir hv. þingmenn sem hér eru en ég deili því mati sem hún kom með. En vegna þess að hv. þingmaður nefndi sérstaklega sem hugsanlega skýringu á afstöðu ýmissa þingmanna í stjórnarliðinu að þeir vilji með einhverjum hætti, hugsanlega með stuðningi við þetta mál, standa vörð um þá ríkisstjórn sem nú situr þá spyr ég hv. þingmann hvort hún hafi heyrt einhvern annan en hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir að afdrif þessa máls hefðu einhver áhrif á stjórnarsamstarfið eða framtíð ríkisstjórnarinnar. Mér hefur fundist liggja alveg skýrt fyrir af hálfu stjórnarandstöðunnar á þessu þingi að við værum á engan hátt að taka afstöðu eða reyna að fella ríkisstjórnina. (Forseti hringir.) Við höfum ekki komið með neina vantrauststillögu á ríkisstjórnina, (Forseti hringir.) hún ræður sínum örlögum en enginn (Forseti hringir.) hefur nefnt þetta nema hæstv. forsætisráðherra. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta (Forseti hringir.) afsökunar á því að hafa farið (Forseti hringir.) fram yfir tímann.