Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 23:58:07 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka forseta fyrir röggsama stjórn. Vegna orða hv. þm. Róberts Marshalls áðan vil ég vekja athygli á því að ég veit ekki til að nokkur stjórnarandstöðuþingmaður hafi samþykkt þennan kvöldfund og óskað sérstaklega eftir því að vera við þessa umræðu í kvöld. En ég fagna því hins vegar hversu margir, og ég meina það innilega, stjórnarþingmenn og ráðherrar eru hér í kvöld. Því verður að hrósa líka og ég fagna því og hrósa ykkur, ágætu þingmenn, sem hér eruð, fyrir að hafa mætt hingað.

Ég vek einnig athygli á því, herra forseti (Gripið fram í.) — þarna kallaði hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég vil líka vekja athygli á því að ástæðan fyrir því að við stjórnarandstöðuþingmenn óskum eftir því að stjórnarþingmenn séu viðstaddir er að enginn þeirra er á mælendaskrá. Það er ekki einn stjórnarþingmaður á mælendaskrá. Er þá einhver ástæða fyrir forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna að vera hér þegar enginn stjórnarþingmaður er á mælendaskrá?