138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemd við ummæli hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem sagði að menn væru í málþófi. Ég frábið mér að sitja undir slíku. Ég er enn að ræða þá punkta sem ég setti upp. Ég á eftir að halda hugsa ég sex ræður, kannski sjö, af því að ég á eftir að fara í gegnum áhættugreiningu á þessum vanda. Þangað til er ég ekki kominn í málþóf, herra forseti.

Hv. þingmenn margir hverjir virðast ekki hafa áttað sig á því um hvað málið snýst og ég vil gjarnan spyrja — ekki að ég vilji hvetja þá til að fara upp í pontu en þeir þurfa að svara fyrir þetta seinna meir: Af hverju í ósköpunum samþykktu hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar þessi ósköp? Þeir þurfa allir að útskýra af hverju í ósköpunum þeir samþykktu þessi ósköp sem hugsanlega geta leitt þjóðina í mikla fátækt.